Vel heppnaður aðalfundur BHM

Kolbrún Halldórsdóttir nýr varaformaður og ályktun um virði kvennastarfa

Ný stefna BHM var samþykkt á aðalfundi bandalagsins á þriðjudag. Stefnan er í tólf liðum og er innleiðing hennar þegar hafin. Fulltrúar allra 27 aðildarfélaga BHM sátu aðalfundinn sem fram fór á Grand Hotel Reykjavík. Talsverð tíðindi eru af fundinum en einnig voru þar samþykktar umtalsverðar breytingar á lögum bandalagsins auk breytinga á aðildargjöldum.

Kolbrún Halldórsdóttir, formaður Félags leikstjóra á Íslandi, tók á fundinum við sem nýr varaformaður BHM. Kolbrún er kjörin til tveggja ára og tekur við embættinu af Jóhanni Gunnari Þórarinssyni, varaformanni Stéttarfélags lögfræðinga.

Aðalfundur BHM samþykkt ályktun um mikilvægi þess að leiðrétta skakkt verðmætamat á vinnumarkaði án tafar. Að mati fundarins er slík leiðrétting nauðsynleg til að mæta skorti á fagmenntuðu fólki til starfa í heilbrigðiskerfinu.

Ályktun aðalfundar BHM í heild sinni:

Kerfisbundið vanmat á störfum kvenna er óásættanlegt. Rannsóknir sýna að kynskiptur vinnumarkaður er meginorsök kynbundins launamunar. Við krefjumst þess að tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa frá 2021 komi til framkvæmda. Háskólamenntun kvenna er jafn mikils virði og karla og það á að endurspeglast í launasetningu. Leiðréttum skakkt verðmætamat á vinnumarkaði strax.

BHM krefst þess sérstaklega að yfirlýsing undirrituð af forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra frá 2018 komi til framkvæmda. Íslenskt samfélag er statt í kreppu nýliðunar- og mönnunarvanda í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Leiðrétting á launasetningu hefðbundinna kvennastarfa er þannig nauðsynleg til að mæta skorti á fagmenntuðu fólki til starfa í velferðarkerfinu.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt