Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar vitnaði í þingræðu sinni í gær í grein þriggja hagfræðinga heildarsamtaka á vinnumarkaði þegar hún ræddi neyðarkall sem nýlega barst frá Samkeppniseftirlitinu vegna veikingu þess. Vilhjálmur Hilmarsson hagfræðingur BHM er einn þessara hagfræðinga og segir greinina eiga erindi í umræðuna í dag nú þegar kjaraviðræður eru að hefjast, en greinin var rituð árið 2021. Þorbjörg sagði í ræðu sinni viðbúið að veiking samkeppniseftirlitsins verði tekið fyrir á samningaborðinu.
Í greininni er fjallað um mikilvægi samkeppniseftirlits og virkrar samkeppni fyrir hagsæld íslensks launafólks og velferð á Íslandi. Veiking samkeppniseftirlits vinni gegn því markmiði kjarasamninga að stuðla að auknum kaupmætti launa í landinu.
„Veiking samkeppniseftirlits þjónar helst hagsmunum þeirra fyrirtækja sem eru í stöðu til að nýta sér fákeppni til að skara eld að eigin köku. Þótt Samkeppniseftirlitið á Íslandi sé ekki hafið yfir gagnrýni, þá liggur lausnin ekki í því að veikja það eins og sumir atvinnurekendur vilja, heldur að styrkja það og efla það til að standa vörð um samfélagslega hagsmuni,“ segir enn fremur í grein.
Hér má lesa grein hagfræðinganna Vilhjálms Hilmarssonar BHM, Róbert Farestveit ASÍ og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur BSRB Samkeppni skiptir sköpum fyrir lífskjör á Íslandi.
Hér má lesa skoðun Þorbjargar Aðför ríkisstjórnarinnar að samkeppni