Viska lagði ríkið fyrir Félagsdómi 

Viska – stéttarfélag, eitt aðildarfélaga BHM, hafði á dögunum betur í dómsmáli fyrir Félagsdómi gegn íslenska ríkinu.

Viska höfðaði málið og krafðist þess að viðurkennt yrði að félagið færi með samningsaðild fyrir félagsmann sem nýverið hóf störf á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og að viðurkennt yrði að kjarasamningur Visku og ríkisins gilti um laun og kjör viðkomandi félagsmanns. Íslenska ríkið hafnaði þessu og krafðist sýknu. Hélt ríkið því fram að annað stéttarfélag færi með samningsaðild fyrir viðkomandi starfsmann vegna þess starfs sem viðkomandi gegndi og að einungis eitt stéttarfélag hefði rétt til samningsgerðar við sama vinnuveitanda vegna sömu starfsstéttar.

Frá kröfugöngu 1. maí 2024. Ljósm. Sahara

Félagsdómur féllst á kröfu Visku og dæmdi félaginu og félagsmanninum í vil. Sagði dómurinn að það sé talið eitt megininntak réttar manna til aðildar að stéttarfélögum að þau fari með samningsfyrirsvar við kjarasamningsgerð. Af ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu leiði að starfsmenn eigi rétt til að ganga í stéttarfélög að eigin vild til verndar hagsmunum sínum en séu þó háðir málefnalegum skilyrðum um inngöngu í slík félög.

Um þá málsástæðu að einungis eitt stéttarfélag hafi rétt til samningsgerðar við sama vinnuveitanda fyrir sömu starfsstétt sagði Félagsdómur það vissulega vera meginreglu og því gildi að jafnaði aðeins einn kjarasamningur um laun og önnur kjör þeirra sem sinna sams konar starfi hjá tilteknum vinnuveitanda. Hins vegar séu á þessu undantekningar og í sumum tilvikum sé það svo að fleiri en einn kjarasamningur gildi um sama starf. Svo sé í þessu tilviki og við slíkar aðstæður sé það ekki á forræði vinnuveitanda að ákveða hvor kjarasamningurinn gildi eins og Félagsdómur hefur ítrekað dæmt um.

Að mati Félagsdóms skiptir máli að um er að ræða starf þess eðlis að ekki er gerð krafa um eina tiltekna menntun og/eða reynslu heldur getur ýmis menntun og reynsla nýst í starfinu. Einnig skiptir máli að hvorki Viska né hitt stéttarfélagið höfðu gert kjarasamning við ríkið en hvorugt hafði samið sérstaklega um það starf sem viðkomandi félagsmaður hafði ráðið sig í.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt