Or­lofs- og des­em­ber­upp­bæt­ur

Í kjarasamningum aðildarfélaga BHM eru ákvæði um orlofs- og desemberuppbætur.

Samið er um slíkar persónuppbætur fyrir hvert og eitt ár. Uppbótin er föst krónutala og reiknast ekki orlof á hana.

Ríki og Reykjavíkurborg

NB - upphæðir orlofs- og desemberuppbótar fyrir árið 2024 verða birtar um leið og samningar liggja fyrir.

Orlofsuppbót árið 2023 er 56.000 með gjalddaga 1. júní.

Orlofsuppbót miðast við fullt starf næstliðið orlofsár, en reiknast ella hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma.

Hafi starfsmaður látið af störfum á orlofsárinu vegna aldurs eða eftir a.m.k. 3 mánaða/13 vikna samfellt starf á orlofsárinu, skal hann fá greidda orlofsuppbót hlutfallslega miðað við unninn tíma og starfshlutfall. Sama gildir ef starfsmaður var frá störfum vegna veikinda eftir að greiðsluskyldu stofnunar lýkur eða vegna fæðingarorlofs allt að 6 mánuðum.

Orlofsuppbót er föst fjárhæð og tekur ekki breytingum skv. öðrum ákvæðum samningsins.

Á orlofsuppbót reiknast ekki orlofsfé. Áunnin orlofsuppbót eru gerð upp samhliða starfslokum.

Desemberuppbót árið 2023:

  • Ríki - 103.000 kr.
  • Reykjavíkurborg - 115.000 kr.

Gjalddagi er 1. desember.

Full uppbót miðast við fullt starfshlutfall á viðmiðunartímabili frá 1. janúar til 31. október.

Uppbótin er hlutfallsleg hafi starfsmaður verið í hlutastarfi eða starfað hluta úr ári.

Sveitarfélög

NB - upphæðir persónuuppbóta fyrir árið 2024 verða birtar um leið og samningar liggja fyrir.

Persónuuppbót miðað við 100% starfshlutfall á árinu 2023 er sem hér segir:

1. maí 2023 kr. 55.700

1. desember 2023 kr. 131.000

Almennur vinnumarkaður

Starfsmenn, aðrir en stjórnendur, fá greidda desember- og orlofsuppbót í samræmi við aðalkjarasamninga Samtaka atvinnulífsins (SA) á almennum vinnumarkaði, sbr. grein 1. 5 í samningi aðildarfélaga BHM og SA. Heimilt er í ráðningarsamningi að fella uppbætur inn í mánaðarlaun starfsmanns eða semja um annan greiðsluhátt.

Orlofsuppbót er kr. 58.000 á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2024.

Orlofsuppbótin greiðist þann 1. júní miðað við starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu.

Réttur til fullrar orlofsuppbótar miðast við að starfsmaður hafi unnið 45 vikur eða meira á tímabilinu 1. maí - 30. apríl, fyrir utan orlof. Orlofsuppbót innifelur orlof.

Orlofsuppbót næstu ár:

2025 60.000 kr.

2026 62.000 kr.

2027 64.000 kr.

Desemberuppbót fyrir árið 2024 er kr. 106.000 og greiðist eigi síðar en 15. desember.

Réttur til fullrar desemberuppbótar miðast við að starfsmaður hafi unnið 45 vikur eða meira á almanaksárinu, 1. janúar - 31. desember, fyrir utan orlof.

Desemberuppbót næstu ár:

2025 110.000 kr.

2026 114.000 kr.

2027 118.000 kr.

Fjarvistir

Ákvörðun persónuuppbótar samkvæmt kjarasamningi byggir á því að starfsmaður hafi verið í starfi og launum hjá vinnuveitanda á því viðmiðunartímabili sem samningurinn skilgreinir. Sérreglur gilda hafi starfsmaður verið fjarverandi vegna veikinda eða fæðingarorlofs.

Veikindi

Starfsfólk hjá hinu opinbera sem er frá vinnu vegna veikinda og er á veikindalaunum ávinnur sér rétt til desemberuppbótar á sama tíma.

Eins gildir um starfsfólk sem er frá störfum vegna veikinda eftir að greiðsluskyldu stofnunar lýkur, sbr. grein 1.7.1 í kjarasamningum aðildarfélaga BHM og ríkisins. Sambærileg regla gildir í tilviki orlofsuppbótar, sbr. grein 4.2.2 í kjarasamningi.

Hjá starfsfólki á almennum vinnumarkaði reiknast desemberuppbót miðað við þær vikur sem það hefur fengið greiddar. Desemberuppbót skerðist því hafi starfsmaður fullnýtt veikindarétt sinn og fallið af launaskrá. Sama regla gildir við útreikning orlofsuppbótar.

Fæðingarorlof

Opinberir starfsmenn í fæðingarorlofi njóta réttinda til greiðslu sumarorlofs, persónu- og orlofsuppbótar, sbr. grein 13.2.3 í kjarasamningum aðildarfélaga BHM og ríkisins. Það ber því að greiða umræddar uppbætur á tilsettum tíma, þ.e. í í júní og desember, þó svo aðrar launagreiðslur falli niður vegna fæðingarorlofs.

Á almennum vinnumarkaði gildir slík regla hins vegar ekki fyrr en eftir eins árs starf hjá sama vinnuveitanda. Skulu þá teljast fjarvistir vegna lögbundins fæðingarorlofs til starfstíma við útreikning desember- og orlofsuppbótar.

Sama gildir er kona þarf af öryggisástæðum að leggja niður störf á meðgöngutíma, sbr. reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti, sbr. grein 1.5.3 í kjarasamningi aðildafélaga BHM og SA.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt