Ferða­tími

Ferðir á vegum vinnuveitanda utan hefðbundins dagvinnutíma telst til vinnutíma sem greiða skal fyrir. Ekki er greitt fyrir ferðir starfsfólks til og frá vinnu, nema um það hafi verið samið.

Ferðir til og frá vinnu

Ferðir starfsfólks til og frá vinnu eru farnar í eigin tíma starfsmanns og á hans kostnað, nema um annað hafi verið samið í kjarasamningi, eða eftir atvikum í ráðningarsamningi.

Ferðir utan hefðbundins vinnutíma

Sá tími sem fer til ferðalaga starfsmanns, utan hefðbundins vinnutíma til áfangastaðar annars en fastrar eða hefðbundinnar starfsstöðvar, í því skyni að inna af hendi starf sitt eða skyldur á umræddum öðrum stað, að kröfu vinnuveitanda, telst „vinnutími“ í skilningi vinnutímatilskipunar ESB, sem innleidd hefur verið hér á landi.

Ekki er nauðsynlegt að meta í hve miklum mæli vinna fer fram meðan á ferðunum stendur.

Hér er byggt á niðurstöðu Hæstiréttur Íslands í máli nr. 52/2023 sem snéri að ferðatíma flug­virkja hjá Sam­göngu­stofu og skil­grein­ingu hans sem vinnu­tíma. Fallist var á að tími sem flugvirkinn varði í ferðir á vegum Samgöngustofu til útlanda teldist vinnutími, frá því hann yfirgaf heimili sitt og þar til hann kom á áfangastað og öfugt á heimleiðinni.

Vinnuveitendum ber að greiða fyrir ferðatíma starfsfólks og er ekki heimilt að skilgreina slíkar ferðir sem hluta af frítíma þess.

Niðurstaðan er fordæmisgefandi fyrir launagreiðendur hjá hinu opinbera, sem og vinnuveitendur á almennum vinnumarkaði.

Greiðslur fyrir ferðir utan daglegs vinnutíma

Á ferðum starfsmanns á vegum vinnuveitanda, utan daglegs vinnutíma eða vaktar, skal greiða laun í samræmi við ákvæði kjarasamnings, eða eftir atvikum ráðningarsamning viðkomandi starfsmanns.

Félagsfólk er hvatt til að hafa samband við sitt aðildarfélag innan BHM varðandi rétt þess til launa, þ.m.t. yfirvinnulauna eða frítökuréttar, vegna vinnutengdra ferða sem farnar eru að beiðni vinnuveitenda, jafnt innanlands sem utan.

Vegna ferða erlendis geta einnig komið uppbætur vegna óhagræðis sem af því leiðir.

Hvíldartímareglur

Vinnutíma skal haga þannig að á 24 stunda tímabili, reiknað frá skipulögðu/venjubundnu upphafi vinnudags starfsmanns, fái starfsmaður a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld (daglegur hvíldartími). Verði því við komið, skal dagleg hvíld ná til tímabilsins frá kl. 23:00 til 06:00.

Um daglegan og vikulegan hvíldartíma starfsfólks er nánar fjallað í kjarasamningum og IX. kafla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt