Ófærð

Starfsfólk kemst ekki til vinnu

Almenna reglan er að komist starfsfólk ekki til vinnu vegna utanaðkomandi aðstæðna ber það sjálft ábyrgð á því. Ef það getur ekki sinnt starfi sínu í fjarvinnu er það því launalaust eða vinnur vinnudaginn eða vaktina af sér síðar. Þetta á við jafnvel þótt yfirvöld hafi sent út viðvaranir vegna veðurs og beint því til fólks að halda sig heima.

Ríkið

Ríkið hefur um árabil beint því til stofnana sinna að þegar það er ófært vegna veðurs eða náttúruhamfara greiði stofnanir dagvinnulaun, en ekki vaktaálag og fleira sem annars hefði komið til. Sérstaklega þegar yfirvöld hafa gefið út viðvaranir vegna veðurs og beint því til almennings að vera ekki á ferðinni.

Ef starfsfólk mætir til vinnu en atvinnurekandi hefur lokað og sent starfsfólk heim ber atvinnurekanda að greiða reglubundin laun.

Komist starfsmaður ekki heim að vinnu lokinni skapast ekki greiðsluskylda vinnuveitanda. Aftur á móti þarf að greiða fyrir unna tíma ef um vaktavinnu er að ræða og starfsmaður vinnur áfram ef aðrir komast ekki á staðinn.

Við hvetjum fólk til að ræða hvernig þessum málum er háttað við sinn vinnuveitanda.

Sveitarfélög

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur beint sambærilegum tilmælum og að ofan greinir til sveitarfélaga um þær reglur sem gilda um laun og frítökurétt starfsfólks þegar óveður og/eða ófærð hamla vinnusókn.

Um þetta atriði er einnig fjallað í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga SNS (utan Reykjavíkur) og aðildarfélaga BHM.

Almennur vinnumarkaður

Kjarasamningur BHM og Samtaka atvinnulífsins geymir ekki ákvæði um hvernig með skuli fara ef starfsmaður kemst ekki til vinnu vegna ófærðar.

Í skýringum SA segir hins vegar að mæti starfsmaður ekki til starfa af völdum ófærðar, sé hann launalaus eða vinnur daginn af sér síðar, nema um annað hafi verið samið. Hið sama gildir ef starfsmaður mætir of seint eða fer fyrr heim af þessum ástæðum.

Ef tekin er ákvörðun um að loka fyrirtæki vegna veðurs heldur starfsmaður aftur á móti launum þann tíma sem skipulagt var að hann ynni.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt