Starfsfólk kemst ekki til vinnu
Almenna reglan er að komist starfsfólk ekki til vinnu vegna utanaðkomandi aðstæðna ber það sjálft ábyrgð á því. Ef það getur ekki sinnt starfi sínu í fjarvinnu er það því launalaust eða vinnur vinnudaginn eða vaktina af sér síðar. Þetta á við jafnvel þótt yfirvöld hafi sent út viðvaranir vegna veðurs og beint því til fólks að halda sig heima.
Ríkið
Ríkið hefur um árabil beint því til stofnana sinna að þegar það er ófært vegna veðurs eða náttúruhamfara greiði stofnanir dagvinnulaun, en ekki vaktaálag og fleira sem annars hefði komið til. Sérstaklega þegar yfirvöld hafa gefið út viðvaranir vegna veðurs og beint því til almennings að vera ekki á ferðinni.
Ef starfsfólk mætir til vinnu en atvinnurekandi hefur lokað og sent starfsfólk heim ber atvinnurekanda að greiða reglubundin laun.
Komist starfsmaður ekki heim að vinnu lokinni skapast ekki greiðsluskylda vinnuveitanda. Aftur á móti þarf að greiða fyrir unna tíma ef um vaktavinnu er að ræða og starfsmaður vinnur áfram ef aðrir komast ekki á staðinn.
Almannavarnir - tilmæli um að halda sig heima vegna óveðurs
Óvissa hefur ríkt um hvernig túlka beri áðurnefndar leiðbeiningar í ljósi þess þegar Almannavarnir og Veðurstofan senda út tilmæli til almennings um að halda sig heima vegna yfirvofandi óveðurs.
Í svari Fjármálaráðuneytis dags. 19. mars 2025 við beiðni BHM um skýringar á þessu atriði segir m.a.:
„Ekki hægt að gefa út algilda reglu og/eða leiðbeiningu um hvað felst í almennri ófærð, skv. umræddum leiðbeiningum ráðuneytisins frá árinu 2000, heldur er það matskennt atriði vegna ófyrirséðra og óviðráðanlegra ytri atvika sem eiga sér stað hverju sinni sem hvorki starfsmaður né vinnuveitandi ráða við. Tilmæli stjórnvalda á borð við Almannavarnir og Veðurstofu Íslands kunna að hafa þýðingu við það mat en eru ekki ráðandi. Ávallt þarf að meta þarf hvert tilvik fyrir sig hverju sinni. Þar kann einnig að hafa þýðingu hvar starfsmaður er búsettur og hvort að almenningssamgöngur liggi niðri, sem dæmi."
Þá segir í umræddu bréfi: "Starfsfólk er ávallt bundið við það að gera sitt ýtrasta til að koma sér til vinnu. Ef t.d. hægt er að koma sér frá heimili til vinnu þá ber viðkomandi starfsmanni að gera það eða um leið og það er fært, nema fyrir liggi fyrir fyrirmæli um annað frá yfirmanni.“
og að síðustu: " ... ákvarðanir eru alltaf teknar í nærumhverfi af forstöðumanni hlutaðeigandi stofnunar sem ber ábyrgð á starfseminni og þar með starfsmannahaldi. Ekki er útilokað að við mat hans komi til skoðunar hverskonar starfsemi um ræðir þ.e. hversu miklar kröfur gerðar eru til starfsmannsins að mæta til vinnu vegna þeirra verkefna sem þarf að sinna. Í því samhengi kann einnig að koma til skoðunar hvort að aðstæður séu t.d. með þeim hætti að starfsmaður geti leyst verkefni sín heima fyrir í fjarvinnu, í stað þess að mæta á vinnustaðinn sjálfan o.s.frv. Rétt er að stuðlað sé að góðum og traustum samskiptum þar sem gagnkvæmt upplýsingaflæði milli stjórnenda og starfsfólks er til staðar."
Sveitarfélög
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur beint sambærilegum tilmælum og að ofan greinir til sveitarfélaga um þær reglur sem gilda um laun og frítökurétt starfsfólks þegar óveður og/eða ófærð hamla vinnusókn.
Um þetta atriði er einnig fjallað í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga SNS (utan Reykjavíkur) og aðildarfélaga BHM.
Almennur vinnumarkaður
Kjarasamningur BHM og Samtaka atvinnulífsins geymir ekki ákvæði um hvernig með skuli fara ef starfsmaður kemst ekki til vinnu vegna ófærðar.
Í skýringum á heimasíðu SA segir hins vegar að mæti starfsmaður ekki til starfa af völdum ófærðar, sé hann launalaus eða vinnur daginn af sér síðar, nema um annað hafi verið samið. Hið sama gildir ef starfsmaður mætir of seint eða fer fyrr heim af þessum ástæðum.
Ef tekin er ákvörðun um að loka fyrirtæki vegna veðurs heldur starfsmaður aftur á móti launum þann tíma sem skipulagt var að hann ynni.