Stofnanakerfi ríkisins hefur tekið ýmsum breytingum á undanförnum árum í tengslum við markmið stjórnvalda um að auka skilvirkni og bæta þjónustu.
Starfsfólk fyrirtækja á hinum almenna markaði býr sömuleiðis við starfsumhverfi sem breytist reglulega í samræmi við þróun á mörkuðum og tækninýjungar.
Mikilvægt er að breytingum í starfsmannahaldi sé stýrt á sanngjarnan og gagnsæjan hátt í samræmi við réttindi starfsfólks samkvæmt lögum og kjarsamningum. Þá er nauðsynlegt að starfsfólki sé veittur fullnægjandi stuðningur og aðstoð á öllum stigum, einkum ef áform eru um uppsagnir. Síðast en ekki síst að mannauður á hverjum vinnustað sé nýttur til þess að fá fram sjónarmið og hugmyndir því þar liggur þekking og reynsla á þeim viðfangsefnum sem viðkomandi stofnanir eða fyrirtæki fást við.
Efla þarf starfsþróun og úrræði til endurmenntunar til að auðvelda starfsfólki að laga sig að nýjum áherslum og kröfum á vinnumarkaði.
Réttindi starfsfólks
Vinnuveitendum, bæði hjá hinu opinbera og á almennum vinnumarkaði, er almennt heimilt að gera ráðstafanir í starfsmannamálum til að laga starfsemi og þjónustu að breyttum aðstæðum og kröfum.
Þá er starfsfólki ríkisins skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er það tók við starfi, sbr. 19. gr. starfsmannalaga.
Starfsfólki fyrirtækja á almennum vinnumarkaði er sömuleiðis skylt að hlíta breytingum á sínum störfum eftir því sem nánar er kveðið í ráðningarsamningi og þeim kjarasamningi sem aðilar eru bundnir af.
Hins vegar ef uppi eru áform um meiriháttar breytingar á starfsmannahaldi, þ.m.t. vegna hópuppsagna eða þegar vinnuveitandi ráðgerir svokölluð aðilaskipti að fyrirtæki þá ber að veita fulltrúum starfsfólks upplýsingar um þau áform með góðum fyrirvara og hafa samráð um áhrif fyrirhugaðra breytinga á stöðu starfsfólks og starfsöryggi.
Einnig er minnt á almenn ákvæði um upplýsinga- og samráðskyldu vinnuveitanda í fyrirtækjum og stofnunum þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 50 starfsmenn,
BHM - aðstoð við félagsfólk
Aðildarfélög BHM styðja við bakið á félagsfólki sem stendur frammi fyrir breyttu starfsumhverfi vegna áforma um skipulagsbreytingar. Starfsfólk er hvatt til að hafa samband við sitt aðildarfélag sem og trúnaðarmenn til að leita upplýsinga um réttarstöðu sína.