Upp­lýs­ingar og sam­ráð

Starfsfólk fyrirtækja og stofnana, þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 50 starfsmenn, á rétt á upplýsingum um stöðu og þróun í rekstri og samráði vegna ákvarðana sem líklegar eru til að hafa áhrif á stöðu þeirra og atvinnuöryggi, sbr. lög um upplýsingar og samráð.

Við miðlun upplýsinga og samráðs skal unnið í anda samvinnu að teknu tilliti til hagsmuna viðkomandi fyrirtækis og starfsfólks.

Fyrirtæki á almennum markaði og opinber félög

Með hugtakinu fyrirtæki í skilningi laganna er átt við félög, einstaklingar og opinber fyrirtæki sem stunda atvinnurekstur án tillits til þess hvort slíkt sé gert í hagnaðarskyni, sbr. 3. gr. laganna.

Í lögunum er ekki að finna afmörkun á því hvað felst í hugtakinu opinbert fyrirtæki, að öðru leyti en því að þar fari fram atvinnurekstur án tillits til þess hvort hann telst hagnaðardrifinn. Í því ljósi má telja að ýmis fyrirtæki í eigu ríkisins þ.m.t. opinber hlutafélög falli undir gildissvið laganna, að því tilskyldu að þar starfi að jafnaði a.m.k. 50 starfsmenn.

Upplýsingar og samráð

Á grundvelli laganna ber vinnuveitanda að veita fulltrúum starfsfólks upplýsingar um eftirfarandi atriði:

  1. nýliðna þróun og horfur varðandi starfsemi og fjárhagsstöðu fyrirtækisins,
  2. stöðu, skipulag og horfur í atvinnumálum í fyrirtækinu og um allar ráðstafanir sem fyrirsjáanlegar eru, einkum ef atvinnuöryggi er ógnað,
  3. ákvarðanir sem líklegt er að leiði til verulegra breytinga á skipulagi vinnunnar eða á ráðningarsamningum starfsmanna, þar með taldar ákvarðanir sem eru byggðar á ákvæðum laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og hópuppsagnir.

Upplýsingarnar skulu veittar á þeim tíma, á þann hátt og þess efnis sem heppilegast er svo að fulltrúar starfsmanna geti hafið viðeigandi athugun og undirbúið samráð ef þess gerist þörf.

Á grundvelli upplýsinga um stöðu og horfur og fyrirhugaðar breytingar í starfsmannamálum skal fulltrúum starfsmanna gefast kostur á samráði með því að eiga fund með vinnuveitanda og fá viðbrögð frá honum við því áliti sem þeir kunna að setja fram. Samráð skal eiga sér stað á viðeigandi stjórnunarstigi fyrirtækisins og með viðeigandi fyrirsvari eftir því hvaða efni er til umræðu.

Í kjölfar viðræðna og skoðanaskipta skal vinnuveitandi gera grein fyrir ástæðum viðbragða sinna við þeim athugasemdum sem fram hafa komið af hálfu fulltrúa starfsmanna.

Aðilaskipti eða hópuppsagnir

Ef ákvarðanir í starfsmannamálum sem líklegt er að leiði til verulegra breytinga, þ.m.t. ákvarðanir sem eru byggðar á ákvæðum laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og hópuppsagnir, skal samráð fara fram með það að markmiði að ná samkomulagi um þær.

EES-reglur

Lög um upplýsingar og samráð byggja á tilskipun 2002/14/EB um almennan ramma um upplýsingamiðlun til launamanna og samráð.

Um lágmarksákvæði er að ræða. Heimilt er með kjarasamningum eða samningum milli vinnuveitanda og fulltrúa starfsmanna að kveða á um nánari tilhögun og framkvæmd án þess að vikið sé frá markmiðum tilskipunarinnar.

Rannsóknarstofnun ETUC í málefnum vinnumarkaðarins heldur úti sérstakri síðu um regluverk Evrópusambandsins á þessu sviði.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt