Veik­indi og upp­sögn

Samkvæmt meginreglu vinnuréttar og kröfuréttar leysir uppsögn ráðningarsamnings starfsmenn og vinnuveitendur, undan skyldum sínum samkvæmt ráðningarsambandi, að loknum uppsagnarfresti og fellur veikindaréttur niður við starfslok hvort heldur starfsmaður segir upp starfi sínu eða honum er sagt upp störfum. Frá þessari meginreglu eru þó vissar undantekningar.

Starfsmaður veikist á uppsagnarfresti

Hafi starfsmanni borist uppsögn með venjulegum uppsagnarfresti en veikist eftir það á hann ekki rétt til launagreiðslna lengur en til loka ráðningartímans. Undantekning frá þessu getur verið ef um vinnuslys eða atvinnusjúkdóm er um að ræða.

Veikindi koma upp áður en uppsögn er tilkynnt

Ef veikindi bera að höndum áður en til uppsagnar kemur, heldur starfsmaðurinn veikindarétti sínum þar til hann er vinnufær á ný eða veikindarétturinn er tæmdur. Þetta byggist á því meginsjónarmiði að atvinnurekandanum á ekki að vera mögulegt að skerða veikindaréttindi starfsmanna sinna með uppsögn úr starfi. Það þýðir að ef réttur til veikindaleyfis á launum er lengri en uppsagnarfrestur þá heldur starfsmaður rétti sínum til launa út umsaminn veikindarétt.

Í dómum Hæstaréttar í málum nr. 128/2010 og 121/2013 var því slegið föstu að þó almennt sé heimilt að segja starfsmanni upp þó hann sé í veikindaleyfi og njóti forfallalauna á grundvelli kjarasamnings þá verði réttindum starfsmanna til forfallalauna í veikindum, sem hafa komið til áður en viðkomandi starfsmanni var sagt upp störfum, almennt ekki skertur með uppsögn. Sjá einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 572/2016.

Í dómi héraðsdóms í máli nr. E-2661/2020 voru málsatvik þau að framhaldsskólakennara var sagt upp störfum í apríl 2019. Hún hafði þá verið frá störfum vegna veikinda frá 1. nóvember 2018 eða í rúma fimm mánuði. Vegna starfsaldurs átti hún rétt til launa í veikindaforföllum í allt að 12 mánuði (360 daga) þar sem hún hafði verið í starfi í meira en 18 ár. Henni voru hins vegar einungis greidd laun á uppsagnarfresti fyrir maí, júní og júlí. Hún taldi sig aftur á móti eiga rétt til launa í veikindum fram í nóvember en staðfest var að hún var veik allan þann tíma. Í málinu var m.ö.o. tekist á um það hvort ríkið hafi mátt skerða rétt kennarans til launa í veikindum, sem voru hafin, með uppsögn.

Kennarinn rökstuddi kröfu sína til áframhaldandi greiðslu veikindalauna m.a með því að benda á orðalag ákvæðis í 12. kafla kjarasamninga þar sem segir að laun í veikindum greiðist „þó ekki lengur en ráðningu er ætlað að standa“. Bent var á að ef ætlun samningsaðila hefði verið að rétturinn takmarkaðist við uppsagnarfrest hefði orðalag ákvæðisins verið í samræmi við það. Með öðrum orðum, þá stæði þar að laun í veikindum væru ekki greidd lengur en ráðning stæði. Einnig lagði stefnandi áherslu á að samningsbundinn réttur til launa í veikindum væri lítils virði ef vinnuveitandi gæti komist hjá því að virða þann rétt með því að segja veikum starfsmanni upp störfum.

Héraðsdómur féllst á röksemdir kennarans og dæmdi ríkið til að greiða kennaranum laun til 7. nóvember 2019.

Í niðurstöðu dómsins segir m.a.: „Það liggur fyrir að almennt er heimilt að segja starfsmanni upp þó að hann sé í veikindaleyfi og njóti forfallalauna á grundvelli kjarasamnings. Það verður þó ráðið af dómaframkvæmd að réttur starfsmanna til forfallalauna í veikindum, sem hafa komið til áður en viðkomandi er sagt upp störfum, verði almennt ekki skertur með uppsögn."

Niðurstaða héraðsdóms var staðfest í Landsrétti í máli nr. 123/2021.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt