Veikindaréttur vegna barna yngri en 13 ára

Ríki og sveitarfélög

Annað foreldri á rétt á að vera frá vinnu í samtals 12 vinnudaga (96 vinnuskyldustundir miðað við fullt starf) á hverju almanaksári vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri, enda verði annarri umönnun ekki við komið. Í þessum fjarvistum skal greiða starfsmanni dagvinnulaun og vaktaálag samkvæmt reglubundinni varðskrá/vaktskrá, sbr. grein 12.8.1 í kjarasamningi.

Almennur vinnumarkaður

Fyrstu sex mánuði í starfi hjá vinnuveitanda er foreldri heimilt að verja tveimur dögum fyrir hvern unninn mánuð til aðhlynningar sjúkum börnum sínum undir 13 ára aldri, enda verði annarri umönnun ekki við komið. Eftir 6 mánaða starf verður rétturinn 12 dagar á hverju 12 mánaða tímabili.

Foreldri heldur dagvinnulaunum sínum, svo og vaktaálagi þar sem það á við.

Með foreldri er einnig átt við fósturforeldri eða forráðamann, sem er framfærandi barns og komi þá í stað foreldris, sbr. grein 4.8.1 í kjarasamningi BHM og SA.

Sams konar ákvæði er í kjarasamningi SA og aðildarfélaga ASÍ. Félagsdómur hefur fjallað um túlkun þessa samningsákvæðis m.a. í máli Félags iðn- og tæknigreina frá 16. júní 2021. Þar segir að ákvæðinu sé ætlað að mæta tilfallandi veikindum sem eru þess eðlis að barn getur vegna veikindanna hvorki farið í leikskóla né skóla þann dag, ámóta og veikindaréttur foreldranna sjálfra, þegar þau sem starfsmenn geta ekki mætt til vinnu og verða að vera heima við vegna eigin veikinda. Féllst dómurinn ekki á þau rök stefnanda að undir ákvæðið falli það að fara með barn sitt til talþjálfunar á vinnutíma, þannig að greiða beri starfsmanni laun á meðan hann sinnir slíku erindi.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt