Tilkynning veikinda

Tilkynna ber vinnuveitanda um óvinnufærni vegna veikinda eða slyss.

Ef starfsmaður er fjarverandi í meira en 5 vinnudaga samfleytt, skal hann sanna óvinnufærni sína með læknisvottorði. Ef um endurteknar eða langvarandi fjarvistir er að ræða, skal hann sanna óvinnufærni sína með læknisvottorði eftir nánari ákvörðun forstöðumanns/yfirmanns.

Starfsfólk sem óvinnufært vegna veikinda eða slyss er skylt að gangast undir hverja þá venjulega og viðurkennda læknisrannsókn sem trúnaðarlæknir kann að telja nauðsynlega til þess að skorið verði úr því hvort forföll séu lögmæt, enda sé kostnaður vegna viðtals við lækni og nauðsynlegra læknisrannsókna greidd af vinnuveitanda.

Endurgreiða skal starfsmanni gjald vegna læknisvottorða sem krafist er samkvæmt framansögðu. Sama gildir um viðtal hjá lækni vegna öflunar vottorðs.

Trúnaðarlæknir vinnuveitanda

Starfsfólki ber að jafnaði ekki skylda til að mæta til skoðunar hjá trúnaðarlækni. Það er þó ekki útilokað að sú staða komi upp að skoðun trúnaðarlæknis eigi við og því mikilvægt að skoða hvert mál fyrir sig.

Í veikindakafla kjarasamnings aðildarfélaga BHM er fjallað um úrræði yfirmanns í því skyni að fá úr því skorið hvort forföll starfmanns sem kveðst vera óvinnufær vegna veikinda eða slyss séu réttmæt. Þannig getur yfirmaður krafist þess að lagt sé fram vottorð frá trúnaðarlækni strax í kjölfar þess að starfsmaður tilkynnir um óvinnufærni vegna veikinda eða slyss, auk þess sem ákvörðun um þörf á frekari vottorðum er að jafnaði í höndum yfirmanns. Þá er starfsmanni skylt að gangast undir hverja þá venjulegu og viðurkenndu læknisrannsókn sem trúnaðarlæknir telur nauðsynlega til að skera úr því hvort forföll séu lögmæt.

Jafnframt getur yfirmaður krafist vottorðs trúnaðarlæknis um starfshæfni vegna endurkomu til starfa eða varanlega óvinnufærni.

Dómafordæmi

Dómur Félagsdóms (mál nr. 3/2022)

Í lok árs 2022 dæmdi Félagsdómur í máli 3/2022 að starfsfólki hjá hinu opinbera sé að meginreglu ekki skylt að mæta til viðtals og/eða skoðunar hjá trúnaðarlækni vinnuveitanda. Þær aðstæður geti þó verið uppi að slíkt sé nauðsynlegt en það heyri þá til undantekninga. Ekki sé því til dæmis heimilt að skylda allt starfsfólk sem er veikt lengur en ákveðinn fjöldi daga til fundar hjá trúnaðarlækni.

Í dóminum var bent á að í kjarasamningsákvæðunum sé ekki vikið að því með hvaða hætti trúnaðarlæknir skuli leggja mat á vinnufærni starfsmanns eða hver skuli vera undanfari útgáfu lækni svottorðs hans. Þannig sé hvorki mælt fyrir um skyldu starfsmanns til að mæta til skoðunar eða viðtals hjá trúnaðarlækni né um heimild vinnuveitanda til að gefa starfsmanni slík fyrirmæli.

Þá var jafnframt horft til þess að þess að það er meginregla að sjúklingur geti leitað til þess læknis sem honum henti best, sbr. 20. gr laga nr. 74um réttindi sjúklinga og að heilsufar telst til einkamálaefna fólks sem nýtur verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar. Heimild vinnuveitanda til að gefa starfsmanni fyrirmæli um að mæta til trúnaðarlæknis í því skyni að upplýsa um heilsufar sitt og eftir atvikum sæta skoðun telst íþyngjandi í garð starfsmannsins. Orða hefði þurft svo afdráttarlausa heimild vinnuveitanda með skýrum hætti í kjarasamningi aðila hafi ætlunin verið að semja um hana.

Hins vegar benti dómurinn á að ekki væri loku fyrir það skotið að aðstæður geti verið með þeim hætti að trúnaðarlæknir komist að niðurstöðu um að ekki sé mögulegt að gefa út læknisvottorð nema að undangengnu viðtali eða skoðun á viðkomandi starfsmanni. Verði starfsmaður í slíku tilviki ekki við beiðni trúnaðarlæknis um að mæta til viðtals eða skoðunar kann það að leiða til þess að læknirinn geti ekki með vottorði staðfest óvinnufærni, eða eftir atvikum vinnufærni, viðkomandi starfsmanns. Það leiðir af ákvæðum kjarasamnings aðila að vinnuveitandi kann við þær aðstæður að líta svo á að ekki hafi verið sýnt fram á réttmæt forföll viðkomandi starfsmanns frá vinnu eða að hann sé fær til koma aftur til starfa.

Dómur Landsréttar (mál nr. 168/2022)

Í dómi Landsréttar í júní 2023 í máli nr. 168/2022 var ágreiningur um hvort starfsmanni hafi borið skylda til að sæta skoðun trúnaðarlæknis. Vísaði Landsréttur til framangreinds dóms Félagsdóms og sagði hann hafa fordæmisgildi við úrlausn þessa máls. Sagði Landsréttur að ákvæði kjarasamninga um trúnaðarlækna feli ekki í sér skyldu til að mæta til skoðunar hjá trúnaðarlækni vinnuveitanda. Var því ekki fallist á þá afstöðu vinnuveitanda að starfsmaður hafi, með því að mæta ekki til skoðunar hjá trúnaðarlækni, brotið gegn kjarasamningsbundnum skyldum sínum.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt