Ríki og sveit­ar­fé­lög

Launafólk ávinnur sér rétt til launa í forföllum vegna eigin veikinda eða barna sinna, sem og slysa, eftir því sem nánar er kveðið í kjarasamningum aðildarfélaga BHM.

Almennt

Réttindi og skyldur launafólks og vinnuveitanda þegar forföll verða veikinda eða slysa eru þau sömu án tillits til þess hvaða aðildarfélög innan BHM eiga í hlut, sbr. 12. kafla kjarasamnings. Í þeim reglum er mælt fyrir um tilkynningu veikinda, ákvörðun veikindaréttar sem eykst miðað við starfstíma og veikindalaun skilgreind. Einnig eru ákvæði um laun í forföllum vegna slysa og atvinnusjúkdóma. Ennfremur er kveðið á um rétt foreldris til að vera frá vinnu í samtals 12 vinnudaga á launum á hverju ári vegna veikinda barna.

Félagsfólki er ráðlagt að hafa samband við sitt aðildarfélag innan BHM ef upp koma vafamál varðandi túlkun veikindaréttar.

Veikindaréttur - veikindadagar

Starfsfólk sem ráðið er til starfa á mánaðarlaunum í a.m.k. 2 mánuði heldur launum svo lengi sem veikindadagar, taldir í almanaksdögum, verða ekki fleiri á hverjum 12 mánuðum en hér segir:

Starfstími

  • 0-3 mánuðir í starfi — 14 dagar
  • Næstu 3 mánuðir — 35 dagar
  • Eftir 6 mánuði — 119 dagar
  • Eftir 1 ár — 133 dagar
  • Eftir 7 ár — 175 dagar

Við framantalinn rétt bætist auk þess réttur til mánaðarlauna samkvæmt kjarasamningi í 13 vikur eða 91 dag ef óvinnufærni stafar af vinnuslysi eða atvinnusjúkdómi.

Starfstími

  • Eftir 12 ár — 273 dagar
  • Eftir 18 ár — 360 dagar

Við útreikning á veikindarétti starfsmanns hverju sinni er horft til fjölda veikindadaga síðustu 12 mánuði sem hann hefur tekið á því tímabili og sá fjöldi dreginn frá rétti hans.

Í grein 12.2.2 kjarasamnings eru ákvæði um veikindadaga starfsmanna sem ráðnir eru í tímavinnu. Á fyrstu 3 starfsmánum ávinnur starfsmaður sér 2 veikindadaga hvern mánuð, en eftir 3 mánuði starfi verða þeir 14 dagar og 30 dagar eftir 6 mánuði.

Laun vegna veikinda og slysa

Starfsmaður á föstum launum (fastlaunasamningi) fær sín föstu laun greidd hvort sem veikindin vara í eina viku eða lengur, sbr. greinar 12.2.6 og 12.2.7 í kjarasamningi.

Í fyrstu viku veikinda- og slysaforfalla eða þann tíma sem svarar til einnar viku vinnuskyldu starfsmanns greiðast auk mánaðarlauna, fastar greiðslur svo sem fyrir yfirvinnu, vakta-, gæsluvakta- og óþægindaálag og greiðslur fyrir eyður í vinnutíma enda sé um að ræða fyrirfram ákveðinn vinnutíma samkvæmt reglubundnum vöktum eða reglubundinni vinnu starfsmanns sem staðið hefur í 12 almanaksmánuði eða lengur eða er ætlað að standa a.m.k. svo lengi.

Eftir fyrstu viku veikinda- og slysaforfalla fær starfsmaður, auk þeirra launa sem greidd verða samkvæmt framansögðu, greitt meðaltal þeirra yfirvinnustunda sem hann fékk greiddar síðustu 12 mánaðarleg uppgjörstímabil yfirvinnu eða síðustu 12 heilu almanaksmánuðina.

Ef starfsmaður að læknisráði og með leyfi forstöðumanns vinnur skert starf vegna slyss eða veikinda, skal miða greiðslu veikindalauna fyrir dagvinnu við það starfshlutfall sem vantar á að hann sinni fullu starfi.

Þjónustualdur við ákvörðun veikindaréttar

Við mat á ávinnslurétti starfsmanns skal auk þjónustualdurs hjá viðkomandi launagreiðanda einnig telja þjónustualdur hjá stofnunum ríkis, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum sem kostaðar eru að meirihluta til af almannafé.

Á fyrstu 3 mánuðum samfelldrar ráðningar skal þó fyrri þjónustualdur samkvæmt þessari grein ekki metinn nema að viðkomandi starfsmaður hafi samfelldan þjónustualdur hjá framangreindum launagreiðendum í 12 mánuði eða meira.

Hlutaveikindi

Í kjarasamningum hjá ríki og sveitarfélögum er ákvæði um hlutaveikindi sem er til þess að starfsmaður sem verið hefur frá vinnu vegna veikinda eða slyss eigi kost á aðlögunartíma þegar hann kemur aftur til starfa.

Um heimildarákvæði er að ræða og getur aðeins nýst starfsmanni ef yfirmaður samþykkir það. Skal heimildin notuð sem hluti af endurhæfingu og alltaf tímabundið.

Ákvæðið á ekki við ef starfsmaður er orðinn varanlega ófær um að gegna að fullu því starfshlutfalli er hann er ráðinn til.

Slík ákvæði er í einnig að finna í sumum samningum aðildarfélaga BHM við opinber hlutafélög (ohf.) og sjálfseignarstofnanir.

Sambærilegt ákvæði er ekki í kjarasamningi aðildarfélaga BHM og SA fyrir hinn almenna vinnumarkað.

Veikindalaun

Ef starfsmaður er á hlutaveikindum er staða hans meðhöndluð eins og um tvo aðskilda starfsmenn sé að ræða. Hann fær laun greidd fyrir þann hluta vinnutíma sem hann vinnur, á meðan hann fær veikindagreiðslur fyrir hitt hlutfallið. Þessar veikindagreiðslur dragast frá hans áunnum veikindarétti.

Vinnuslys

Verði starfsmaður óvinnufær af völdum slyss á vinnustað eða á eðlilegri leið til eða frá vinnu, greiðast laun frá upphafi fjarvistanna, sbr, grein 12.2.7.

Vinnuveitendum er skylt samkvæmt kjarasamningi að tryggja starfsfólk sitt með slysatryggingu. Ef vinnuslys veldur örorku eða dauða eru greiddar bætur samkvæmt skilmálum hennar.

Starfsmenn skulu slysatryggðir allan sólarhringinn fyrir dauða eða vegna varanlegrar örorku. Um trygginguna gilda mismunandi bótafjárhæðir og tryggingaskilmálar eftir því hvort starfsmaður verður fyrir slysi í starfi eða utan starfs.

Um skilmála þessara trygginga þegar starfsfólk ríkisins á í hlut gilda reglur nr. 30/1990 (slys í starfi) og reglur nr. 31/1990 (slys utan starfs) sem fjármálaráðherra hefur sett, sbr. 7. kafla kjarasamnings BHM við ríkið.

Um tryggingar starfsmanna Reykjavíkurborgar gilda eftirfarandi reglur.

Starfshæfnisvottorð

Starfsmaður sem verið hefur óvinnufær vegna veikinda eða slysa samfellt í 1 mánuð eða lengur, má ekki hefja starf að nýju nema læknir votti að heilsa hans leyfi. Krefjast má vottorðs trúnaðarlæknis hlutaðeigandi stofnunar. Ef trúnaðarlæknir telur að viðkomandi starfsmaður sé enn ófær og ekki séu horfur á því að breyting verði til batnaðar á ástandi hans í náinni framtíð getur forstöðumaður sett málið í farveg starfsloka með lausnarlaunum.

Vinnuveitandi heldur skrá yfir veikindadaga starfsfólks, sbr. grein 1.2.6.1

Lausnarlaun - langvarandi fjarvistir vegna veikinda

Í kjarasamningum aðildarfélaga BHM er kveðið á um heimild vinnuveitanda til að leysa starfsmann frá störfum vegna langtímaveikinda, sbr. grein 12.4. Þar kemur fram að hafi starfsmaður verið óvinnufær vegna veikinda eða slysa svo mánuðum skiptir á hverju ári um fimm ára tímabil og ekki er skýlaust vottað að hann hafi fengið heilsubót sem ætla megi varanlega, megi leysa hann frá störfum vegna heilsubrests. Í annan stað er tekið fram að þegar starfsmaður hefur verið samfellt frá vinnu vegna veikinda eða slysa launalaust í jafnlangan tíma og þann tíma er hann átti rétt á að halda launum í fjarveru sinni megi leysa hann frá störfum vegna heilsubrests.

Starfsmaður getur að eigin frumkvæði óskað eftir starfslokum ef hann er samkvæmt læknisvottorði orðinn varanlega ófær um að gegna starfi vegna vanheilsu. Krefjast má vottorðs trúnaðarlæknis hlutaðeigandi stofnunar.

Þegar starfsmaður er leystur frá störfum samkvæmt ofansögðu skal hann halda föstum launum (lausnarlaunum) í 3 mánuði samkvæmt grein 12.2.6.

Þegar starfsmaðurinn nær fullri heilsu á ný er ekkert því til fyrirstöðu að hann sæki um sitt fyrra starf eða sambærilegt starf, sbr. dóm héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3026/2019 og álit umboðsmanns Alþingis nr. 10135/2019. Óheimilt er að líta fram hjá umsókn um starf á grundvelli þess að viðkomandi hefur áður þegið lausnarlaun vegna heilsubrests. Umboðsmaður taldi að ákvörðun um að útiloka einstakling frá því að koma til greina í starf hjá sveitarfélagi þyrfti að byggjast á fullnægjandi lagaheimild.

Í kjarasamningi BHM og Sambands íslenskra sveitarfélaga eru sambærileg ákvæði um lausnarlaun.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt