Al­menn­ur vinnu­mark­að­ur

Um veikindarétt launafólks á almennum vinnumarkaði fer samkvæmt kjarasamningi BHM og Samtaka atvinnulífsins (SA).

Veikindaréttur

Um veikindarétt launafólks á almennum vinnumarkaði er fjallað í 4. kafla kjarasamnings BHM og SA.

Tímalengd veikindaréttar reiknast út frá starfstíma hjá sama vinnuveitanda:

  • Á 1. ári í starfi — 2 dagar fyrir hvern unninn mánuð
  • Eftir 1 ár — 2 mánuðir
  • Eftir 5 ár — 4 mánuðir
  • Eftir 10 ár — 6 mánuðir

Starfsmaður sem áunnið hefur sér rétt til 4 eða 6 mánaða launagreiðslna í veikindaforföllum hjá síðasta vinnuveitanda og skiptir um vinnustað á rétt til launagreiðslna um eigi skemmri tíma en í 2 mánuði á hverjum 12 mánuðum.

Veikindarétturinn er heildarréttur á hverju 12 mánaða tímabili án tillits til tegundar sjúkdóms.

Laun greiðast ekki lengur en ráðningu er ætlað að standa. 

Um ávinnslu veikindaréttar í fæðingarorlofi fer skv. lögum um fæðingar og foreldraorlof nr. 95/2000. Samkvæmt 14. gr. þeirra laga reiknast fæðingarorlof til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku, veikindaréttar og uppsagnarfrests.

Útreikningur

Veikindaréttur miðast við greidda veikindadaga á 12 mánaða tímabili. Þegar starfsmaður verður óvinnufær er við upphaf veikinda litið til þess hversu margir dagar hafa verið greiddir á síðustu 12 launamánuðum og dragast þeir frá áunnum veikindarétti. Hafi starfsmaður verið launalaus á tímabili telst það tímabil ekki með við útreikning.

Við talningu veikindadaga á síðustu 12 mánuðum er almennt lagt til grundvallar að starfsmaður á fyrsta starfsári taki aðeins út veikindarétt sinn þá daga sem hann hefði að óbreyttu átt að vera að vinna, það er þegar hann hefur forfallast, en ekki þegar hann hefði átt að vera í fríi.

Veikindalaun

Veikindalaun miðast við föst laun.

  • Með föstum launum er átt við dagvinnulaun auk fastrar reglubundinnar yfirvinnu.
  • Yfirvinna telst föst og reglubundin hafi hún verið samfelld síðustu fjóra mánuði.
  • Með dagvinnulaunum er átt við föst laun fyrir vinnu á dagvinnutímabili, ásamt föstum aukagreiðslum öðrum en kostnaðargreiðslum.

Tilkynning veikinda

Tilkynna ber óvinnufærni vegna veikinda eða slyss þegar í upphafi vinnudags. Vinnuveitandi ákveður hvort læknisvottorðs skuli krafist og hvort það skuli vera frá trúnaðarlækni fyrirtækis. Krefjast má læknisvottorðs af starfsmanni vegna óvinnufærni hvenær sem þykir þörf á.

Atvinnurekandi getur óskað þess að starfsmaður, sem verið hefur óvinnufær vegna veikinda eða slysa samfellt í 1 mánuð eða lengur, leggi fram vottorð um starfshæfni áður en hann hefur störf að nýju. Krefjast má vottorðs trúnaðarlæknis atvinnurekanda.

Endurgreiða skal starfsmanni gjald vegna læknisvottorða sem krafist samvæmt framansögðu. Sama gildir um viðtal hjá lækni vegna öflunar vottorðs.

Trúnaðarlæknir

Starfsfólki ber að jafnaði ekki skylda til að mæta til skoðunar hjá trúnaðarlækni. Það er þó ekki útilokað að sú staða komi upp að skoðun trúnaðarlæknis eigi við og því mikilvægt að skoða hvert mál fyrir sig. Ákvæði um heimild vinnuveitanda til að óska vottorðs trúnaðarlæknis er staðfest geti réttmæti fjarvista vegna veikinda eða slyss eru að stofni til þau sömu og í kjarasamningum hins opinbera. Sjá nánari umfjöllun um það efni hér.

Læknisvottorð

Samkvæmt 19. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 ber að sýna varkárni og nákvæmni við útgáfu vottorða og annarra yfirlýsinga. Skal læknir votta það eitt sem veit sönnur á.

Í reglum nr. 586/1991 um útgáfu læknisvottorða er tekið fram að læknir skuli ekki staðhæfa annað í vottorði en það sem hann hefur sjálfur sannreynt. Geta skal nákvæmlega þeirra heimilda er vottorðið kann að styðjast við. Greina skal glögglega milli frásagnar annarra, eigin athugunar læknis og álita hans. Forðast skal staðhæfingar um óorðna framvindu um ástand sjúklings, er læknirinn lætur í ljós álit sitt.

Forföll af óviðráðanlegum ástæðum

Starfsmaður á rétt á leyfi frá störfum þegar um óviðráðanlegar og brýnar fjölskylduástæður er að ræða vegna sjúkdóms eða slyss sem krefjast tafarlausrar nærveru starfsmanns. Almennt á starfsmaður ekki rétt á launum frá atvinnurekanda í framangreindum tilfellum, nema forföll séu vegna veikinda barna.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt