Opnir vinnumarkaðir vísa til kerfis þar sem starfsfólk getur frjálst flutt á milli svæða eða landa í leit að atvinnu án þess að mæta hindrunum.
Í Evrópu er þessi hugmynd djúpt samofin efnahagslegum samruna ríkja sem leggur áherslu á frjálst flæði vöru, þjónustu, fjármagns og fólks. Ísland, Noregur og Liechtenstein taka þátt í þessu samstarfi með aðild sinni að EES-samningnum. Samningurinn hefur opnað fjölmargar dyr fyrir háskólamenntað fólk og sérfræðinga í ýmsum greinum, þar á meðal í tæknigeiranum, í heilbrigðisþjónustu og fyrir fólk sem starfar í menningargeiranum.
Hinn sameiginlegi opni vinnumarkaður í Evrópu er byggður á eftirfarandi lykilreglum:
1. Frjáls för launafólks: Samkvæmt ákvæðum EES-samningsins hafa borgarar í hvaða aðildarríki sem er rétt til að búa og starfa í hvaða öðru EES-ríki sem er án þess að þurfa sérstök atvinnuleyfi. Þetta er hornsteinn sameiginlegs markaðar ESB sem stuðlar að hreyfanleika vinnuafls yfir landamæri.
2. Jöfn meðferð: Ríkisborgara EES-ríkja eiga rétt á jafnri meðferð í atvinnumálum, launum og vinnuskilyrðum og ríkisborgarar í viðkomandi gestalandi. Þetta kemur í vef fyrir mismunun fólks á grundvelli þjóðernis og tryggir jafna meðferð alls launafólks.
3. Viðurkenning starfsréttinda: Til að stuðla að hreyfanleika launafólks og sjálfstætt starfandi hafa tekið gildi umfangsmikið regluverk um viðurkenningu á starfsréttindum. Þær reglur tryggja að starfsfólk geti flutt starfsréttindi sín og vottorð um starfshæfni á ákveðnum fagsviðum milli ríkja án þess að þurfa að endurmennta sig frá grunni í öðru landi.
4. Samhæfing almannatrygginga: ESB hefur sett reglur til að samhæfa almannatryggingakerfi aðildarríkja sem gera launafólki kleift að viðhalda réttindum sem það hefur aflað sér eins og lífeyrisréttindum, tryggir aðgang að heilbrigðisþjónustu í því landi sem flutt er til og flutning réttar til atvinnuleysisbóta, svo nokkur dæmi séu tekin. Markmiðið er fólk verði ekki fyrir neikvæðum áhrifum af því að flytja milli landa.
5. Vinnulöggjöf: Réttindi launafólks eru í hávegum höfð í regluverki Evrópusambandsins. Réttur til jafnrar meðferðar á vinnumarkaði án tillits til þjóðernis eða annarra þátta er ein af meginreglum hins sameiginlega vinnumarkaðar. Í sameiginlegum reglum sambandsins er einnig fjallað um aðbúnað starfsfólks, vinnutímareglur, og réttindi starfsfólks vegna breytinga í starfsumhverfi þess. Sérstök áhersla er lögð á að konur og karlar njóti njóti sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.