Lögverndun
Í 75. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi megi þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.
Reglur um lögverndaðar starfsgreinar, sem krefjast sérstakrar fagmenntunar til að mega starfa á tilteknu sviði eru venjulega settar til að verndar almannahagsmunum, svo sem lýðheilsu, neytendavernd og umhverfisvernd.
Lögverndun getur falið sér í löggildinginu tiltekins starfs á þann veg að þeim einum sé heimilt að stunda í atvinnuskyni ákveðið starf sem hafi til þess opinbert leyfi, viðurkenningu eða löggildingu.
Lögverndun starfsheitis er önnur tegund lögverndunar sem felur þó ekki í sér einkarétt til tiltekinna starfa.
Heilbrigðisstéttir
Embætti landlæknis fjallar um starfsréttindi heilbrigðisstarfsfólks og veitir starfsleyfi samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Starfsstéttir innan heilbrigðisþjónustunnar njóta lögverndar og hefur sá einn rétt til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem heilbrigðisstarfsmaður sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis.
Um umsóknir EES-ríkisborgara um starfsleyfi innan löggiltrar heilbrigðisstéttar fer samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna nr. 510/2020.
Heilbrigðisstarfsmaður sem fær starfsleyfi eða sérfræðileyfi sem veitt er hér á landi gerir viðkomandi einstaklingi kleift að fá aðgang að sama starfi og hann hefur gegnt í heimaaðildarríki sínu og leggja stund á það með sömu skilyrðum og ríkisborgarar Íslands.
Þá hefur hann val um það hvort hann starfar hér á landi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur eða sem launamaður í sínu fagi undir stjórn annars aðila.
Viðurkenning starfsréttinda fyrir heilbrigðisstéttir fellur í tvo meginflokka:
(1) sjálfkrafa viðurkenning og útgáfa starfsleyfa á grundvelli samræmingar á Evrópuvísu á lágmarkskröfum um menntun og
(2) almennt kerfi til viðurkenningar á vitnisburði um nám, til að hljóta starfsleyfi þegar lágmarkskröfur um menntun eru ekki samræmdar.
Þær heilbrigðisstéttir sem hafa samræmdar lágmarkskröfur um menntun samkvæmt tilskipun 2005/36/EB eru læknar, tannlæknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og lyfjafræðingar, sbr. III. kafla áðurnefndrar reglugerðar.
Heilbrigðisstéttir innan BHM falla undir hið almenna kerfi, sbr. IV. kafla reglugerðarinnar, þ.m.t. sálfræðingar, sjúkraþjálfarar, lífeindafræðingar og þroskaþjálfar.
Umsókn og viðurkenning
Til að öðlast viðurkenningu á starfsréttindum sínum ber umsækjanda að leggja fram hæfnisvottorð eða vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem krafist er í öðru EES-ríki eða Sviss til að geta starfað þar innan viðkomandi heilbrigðisstéttar.
Áður en til viðurkenningar kemur óskar embætti Landlæknis eftir umsögn frá viðeigandi menntastofnun eða fagfélagi.
Uppbótarráðstafanir
Landlækni er heimilt að krefjast þess að umsækjandi um viðurkenningu starfsréttinda ljúki allt að þriggja ára aðlögunartíma, eða taki hæfnispróf, sbr. 19. gr. reglugerðar um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi nr. 477/2020, ef:
- námið sem umsækjandi hefur stundað er að inntaki verulega frábrugðið inntaki þess sem sá vitnisburður um formlega menntun og hæfi sem krafist er hér á landi tekur til, eða
- sú starfsgrein sem er lögvernduð hér á landi nær til einnar eða fleiri tegunda lögverndaðrar atvinnustarfsemi sem er ekki að finna í samsvarandi starfsgrein í heimaaðildarríki umsækjanda og sá munur birtist í sérstöku námi sem krafist er hér á landi og er að inntaki verulega frábrugðið því námi sem liggur að baki hæfnisvottorði umsækjanda eða vitnisburði um formlega menntun og hæfi hans.
Umsækjanda er jafnan heimilt að velja milli aðlögunartíma og hæfnisprófs.
Utan EES
Embætti landslæknis er heimilt að veita starfsleyfi þeim sem lokið hafa sambærilegu prófi frá menntastofnun í ríki utan EES eða Sviss sem viðurkennd er sem slík af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi og heilbrigðisyfirvöldum þess ríkis þar sem námið var stundað.
BHM
Aðildarfélög BHM veita ekki með formlegum hætti umsögn um umsóknir erlendra ríkisborgara um viðurkenningu starfsréttinda á heilbrigðissviði. Afgreiðsla þeirra mála er í höndum embættis Landlæknis. Aðildarfélög bandalagsins veita hins vegar almennar upplýsingar um þær reglur sem gilda á þessu sviði.
Evrópskt fagskírteini
Reglur um evrópskt fagskírteini (e. European Professional Card) hafa verið teknar upp hér á landi, sbr. reglugerð nr. 510/2020 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum eða Sviss til að starfa hér á landi.
EES-borgarar geta sótt um evrópskt fagskírteini til þess að stunda starf sitt í öðru EES-ríki og tekur það bæði til staðfestu og veitingar þjónustu. Umsóknin fer í gegnum IM-upplýsingakerfi framkvæmdastjórnar ESB og er það ýmist gefið út í heimaaðildarríki eða því ríki þar sem umsækjandi hyggst stunda starf sitt.
Fagskírteinið gildir enn sem komið er (2024) einungis fyrir eftirtaldar stéttir: Hjúkrunarfræðinga, lyfjafræðinga, sjúkraþjálfara, fjallaleiðsögumenn og fasteignasala. Sjúkraþjálfarar er lögvernduð heilbrigðisstétt hér á landi, sbr. 3. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012.
Tungumálakunnátta
Í lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi er gerð krafa um að einstaklingar sem fá viðurkenningu á starfsréttindum sínum skulu búa yfir nauðsynlegri tungumálakunnáttu til að geta lagt stund á starfið á Íslandi. Slíkar kröfur skulu vera málefnalegar og í samræmi við lögmæt markmið.
Viðskiptafræðingar og hagfræðingar
Ákvæði laga sem veittu lögverndun á starfsheitunum viðskiptafræðingur og hagfræðingur voru felld brott með lögum nr. 27/2021. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpinu veitti þessi lögverndun ekki neinar starfsréttindi umfram réttinn til að nota umrædd heiti. Lögverndun starfsheita er almennt vægari úrræði en lögverndun starfa með einkarétti til tiltekinna starfa, en þó var talið að slíkt fyrirkomulag gæti falið í sér ónauðsynlegar samkeppnishömlur sem rétt væri að afnema.
Í kjölfar þessara breytinga er nú öllum, þar með talið erlendum ríkisborgurum, heimilt að nota starfsheitin viðskiptafræðingur og hagfræðingur í atvinnustarfsemi án þess að þurfa sérstakt leyfi eða viðurkenningu stjórnvalda.
Nánari upplýsingar veitir Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga.
Lögfræðingar
Starfsheitið lögfræðingur nýtur ekki lögverndunar hér á landi. Gilda þar sambærileg sjónarmið og um starfsheiti viðskiptafræðinga og hagfræðinga.
Sérreglur gilda hins vegar um lögmenn og starfsleyfi þeirra, sbr. lög nr. 77/1998 um lögmenn. Sjá nánar á heimasíðu Lögmannafélagsins.
Lögmenn með starfsleyfi frá öðrum EES-ríkjum hafa heimild til að veita þjónustu hér á landi samkvæmt ákvæðum EES-réttar um viðurkenningu starfsréttinda.
Færeyjar og Grænland
Reglur EES-réttar um viðurkenningu starfsréttinda gilda ekki í Færeyjum og á Grænlandi.
Endurskoðaður Norðurlandasamningur um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir tilteknar heilbrigðis- og hjúkrunarstéttir og dýralækna frá árinu 2020 leggur hins vegar grundvöll að viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, sem menntaðir eru á Grænlandi, og hjúkrunarfræðinga og félags- og sjúkraliða sem menntaðir eru í Færeyjum, með sömu kröfum og settar eru fram í tilskipun nr. 2005/36/EB.
Mat á erlendu námi
ENIC/NARIC skrifstofan sinnir akademísku mati á erlendu námi fyrir stofnanir, háskóla, ráðuneyti, einstaklinga og fyrirtæki. Skrifstofan veitir ekki starfsleyfi. Endanlegt mat á starfsréttindum fólks fer fram hjá hlutaðeigandi stofnunum undir umsjón mennta- og menningarmálaráðuneytis.
Ítarefni
Á vef framkvæmdastjórnar ESB má finna ítarefni um viðurkenningu starfsréttinda innan aðildarríkja EES-samningsins.