Al­manna­trygg­ingar

Almannatryggingar eru samhæfðar milli aðildarríkja í þágu markmiða EES-samningsins um frjálsa för launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga

Samhæfing á almannatryggingum aðildarríkja innan EES fer fram í því skyni að tryggja að fólk viðhaldi réttindum sínum þegar það flytur milli aðildarríkja og njóti jafnræðis í tryggingakerfum annarra ríkja. Þetta öryggi stuðlar að auknu frelsi til að flytjast milli landa með því að tryggja að einstaklingar tapi ekki áunnum réttindum eða aðgengi að þjónustu svo sem heilbrigðisþjónustu, atvinnuleysisbótum, lífeyri og fjölskyldubótum. Samhæfing réttinda milli landa er sérstaklega mikilvæg fyrir launafólk, sjálfstætt starfandi, eftirlaunaþega og fjölskyldur þeirra og tryggir ákveðna samfellu í félagslegri vernd um alla Evrópu.

Samhæfing almannatrygginga innan EES tekur til bótaréttinda og lífeyristrygginga sem eru hluti af hinum lögbundnu almannatryggingum. Lífeyristryggingar íslenska lífeyrissjóðakerfisins falla einnig undir þessar reglur. Tryggingar keyptar á frjálsum markaði gera það hins vegar ekki.

Ávinningur af samhæfingu almannatrygginga

Í eftirfarandi dæmum er lýst hvernig þessar reglur geta gagnast einstaklingum:

1. Aðgangur að heilbrigðisþjónustu

Dæmi: Íslenskur eftirlaunaþegi sem býr á Spáni.

Íslenskur ríkisborgari á eftirlaunum flytur til Spánar og heldur áfram að fá heilbrigðisþjónustu í gegnum íslenska almannatryggingakerfið. Hann getur notað evrópska sjúkratryggingakortið eða vottorð S1 til að fá heilbrigðisþjónustu þar í landi á jafnréttisgrundvelli. Ísland endurgreiðir Spáni kostnað vegna þeirrar þjónustu.

2. Söfnun lífeyrisréttinda í fleiri löndum

Dæmi: Íslenskur verkfræðingur sem vinnur í mörgum löndum.

Verkfræðingurinn vinnur í 10 ár í Danmörku, starfar síðan 5 ár í Þýskalandi og að lokum 15 ár á Íslandi áður en hann fer á eftirlaun. Hvert land hefur sitt eigið lífeyriskerfi, en samkvæmt reglum EES greiðir hvert land verkfræðingnum lífeyri sem samsvarar þeim tíma sem hann lagði sitt af mörkum til tryggingakerfis viðkomandi lands. Þegar verkfræðingurinn nær eftirlaunaaldri í hverju landi fyrir sig getur hann fengið hlutfallslegan lífeyri frá Danmörku, Þýslandi og og Íslandi. Tímabilin sem hann vann í hverju landi eru lögð saman til að uppfylla lágmarksskilyrði til lífeyristöku. Þetta tryggir að hann fái sanngjarnan lífeyri sem endurspeglar allan starfsferil hans, óháð því hvar hann hefur unnið innan EES.

3. Atvinnuleysisbætur á meðan atvinnuleit stendur yfir

Dæmi: Ítalskur launamaður leitar vinnu á Íslandi.

Gegn framvísun á vottorði U2 getur hann flutt rétt sinn til atvinnuleysisbóta frá Ítalíu til Íslands meðan hann leitar að vinnu í allt að þrjá mánuði. Réttur til að flytja rétt til atvinnuleysisbóta milli landa stuðlar að hreyfanleika og gefur fólki kost á að finna ný tækifæri án þess að vera bundið við heimaland sitt.

4. Barnabætur

Dæmi: Pólskur starfsmaður á Íslandi með börn í Pólandi.

Pólverji flytur til íslands til að vinna en skilur börn sín eftir í Pólandi, þar sem maki hans býr. Samkvæmt reglum EES á fjölskyldan rétt á barnabótum hér á landi, þar sem starfsmaðurinn er í vinnu. Póland getur veitt viðbótarbarnabætur ef bætur hér á landi eru lægri en þær sem eru í Pólandi. Fjölskyldur í þessari stöðu geta þannig fengið barnabætur jafnvel þó að þær séu staðsettar í mismunandi löndum.

Tryggingastofnanir

Stjórnvöld í hverju ríki skrá réttindi fólks innan almannatrygginga og miðla upplýsingum um þau milli landa. Eftirtaldar stofnanir hér landi annast skyldur á þessu sviði og eru tengiliðir við tryggingastofnanir í öðrum EES-ríkjum.

Tryggingastofnun ríkisins (lífeyristryggingar; elli- og örorkulífeyrir)

Sjúkratryggingar Íslands (sjúkratryggingar)

Skatturinn (barnabætur)

Vinnumálastofnun (atvinnuleysisbætur)

Samhæfing á löggjöf, en ekki samræming

Almannatryggingakerfi EES-ríkjanna eru samhæfð til stuðnings rétti fólks til frjálsar farar innan EES.

Sjálf réttindin og löggjöf aðildarríkjanna eru hins vegar ekki samræmd að efni til. Af því leiðir að skilyrði til bóta og fjárhæðir í einstökum bótaflokkum eða lífeyris, tímalengd greiðslna, samspil við aðrar tekjur og stjórnsýsla geta verið mismunandi frá einu ríki til annars.

Samhæfing réttinda styðst við eftirfarandi meginreglur:

  1. Mismunun á grundvelli ríkisfangs er bönnuð. EES-borgarar njóta sömu réttinda og bera sömu skyldur og ríkisborgarar þeirra ríkja sem búið er í og/eða starfað.
  2. Samlagning tímabila. Nota má búsetu- eða tryggingatímabil sem umsækjandi um bætur eða lífeyri á að baki samkvæmt löggjöf eins aðildarríkis til að uppfylla svokölluð biðtímaskilyrði samkvæmt löggjöf í öðru ríki.
  3. Greiðsla bóta/lífeyris úr landi. Aðildarríkjum ber að greiða bætur/lífeyri úr landi ef rétthafi þeirra er búsettur í öðru aðildarríki. Gott dæmi um þetta er greiðsla lífeyris almannatrygginga til fólks sem búsett er í öðrum EES-ríkjum.
  4. Sérstök lagavalsákvæði tryggja að einstaklingar falli á hverjum tíma einungis undir löggjöf eins aðildarríkis. Ávinnsla réttinda og greiðsla iðgjalda fari fram í því ríki og þannig komið í veg fyrir að einstaklingar séu tryggðir í tveimur ríkjum á sama tímabili og/eða að greidd séu tryggingagjöld í fleiri ríkjum á sama tíma.

Á vef framkvæmdastjórnar ESB eru birtar ítarlegar leiðbeiningar um samhæfingu almannatrygginga.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt