Tungu­mála­kunn­átta

Heimilt er að gera kröfu um tungumálakunnáttu umsækjenda þegar slík krafa er nauðsynleg vegna eðlis starfsins. Skilyrði um íslenskukunnáttu verða þó ávallt að vera málefnaleg og í samræmi við lögmæt markmið.

Tungumál og starfsskilyrði

Krafa um íslenskukunnáttu má ekki ganga lengra en nauðsynlegt er miðað við markmið viðkomandi starfs. Ef of langt er gengið í slíkri kröfugerð getur hún farið í bága við lög nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði, einkum þegar slík mismunun væri óbein og tengdist til dæmis þjóðernisuppruna. Sjá til hliðsjónar úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 4/2019.

Tungumál og veiting starfsleyfis

Í lögum og reglugerðum um veitingu starfsréttinda í tilteknum starfsgreinum, einkum í heilbrigðisþjónustu, er kveðið á um að heimilt sé að gera kröfur um kunnáttu í íslensku. Dæmi um þetta má finna reglugerðum um veitingu starfsleyfa fyrir heilbrigðisstéttir þar sem heimilt er að gera kröfu um kunnáttu í íslensku og þekkingu á viðeigandi löggjöf og starfsreglum, m.a. vegna öryggis sjúklinga og skilvirkrar þjónustu.

Í lögum um dýralækna kemur fram að Matvælastofnun sé heimilt að gera kröfu í reglugerð um að dýralæknir búi yfir kunnáttu í íslensku eftir því sem við á hverju sinni, enda sé slík kunnátta talin nauðsynleg í starfi.

Tungumál og viðurkenning starfsréttinda - EES

Í lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi er áskilnaður um að þeir einstaklingar sem fá viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi skuli búa yfir nauðsynlegri tungumálakunnáttu til að geta lagt stund á starfið á Íslandi.

Áskilnaðurinn skal vera réttmætur og nauðsynlegur vegna hlutaðeigandi starfsemi. Stefna verður að málefnalegu markmiði og til að mynda væri óheimilt að beita slíkum áskilnaði í því skyni að útiloka fagfólk frá öðrum EES-ríkjum frá vinnumarkaðnum.

Tungumálakunnátta í opinberum störfum

Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 er ekki kveðið á um almenna kröfu um tungumálakunnáttu. Hins vegar er í 6. gr. laganna gerð krafa um almenna menntun og, þegar við á, þá sérmenntun sem lög eða eðli starfs krefjast til að tryggja vandaða og faglega framkvæmd þess.

Heimilt er að setja málefnalegar kröfur um íslenskukunnáttu í störfum hjá ríkinu þegar þær eru nauðsynlegar vegna eðlis starfsins, þjónustuþarfa eða öryggis sjónarmiða. Þetta á sérstaklega við í heilbrigðisþjónustu og þjónustustörfum sem krefjast náinna samskipta við almenning, eins og framan greinir.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt