Fram­sókn

BHM leggur eftirfarandi spurningar fyrir þá flokka og þau framboð sem bjóða fram til Alþingis í kosningunum 30. nóvember 2024.

1. Kaupmáttaraukning háskólamenntaðra stétta hefur verið hverfandi það sem af er öldinni og í tilfelli fólks með meistaragráðu hefur orðið kaupmáttarrýrnun. Hver er afstaða þíns flokks til þessarar stöðu mála og til kröfu háskólamenntaðra um að menntun þeirra verði metin til launa? Sjáið þið fram á einhverjar lausnir sem fært gætu fólki með háskólamenntun fjárhagslegan ávinning af menntun sinni í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum okkar?

  • Framsókn leggur áherslu á mikilvægi háskólamenntunar og telur að menntun eigi að vera metin til launa. Flokkurinn er meðvitaður um að kaupmáttaraukning háskólamenntaðra hefur verið takmörkuð og að það sé mikilvægt að finna leiðir til að bæta fjárhagslegan ávinning af menntun. Slíkar leiðir verður að móta í samstarfi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda því að árangur næst ekki nema með samvinnu þeirra sem koma að því. Til að styrkja stöðu háskólamenntaðra í atvinnulífinu, mætti meðal annars gera með því að hvetja til samninga um laun og kjör sem endurspegli betur menntun og sérfræðiþekkingu. Aðgengi að háskólamenntun þarf að vera gott bjóða fólki upp á sem fjölþættust tækifæri til að þroska hæfileika sína.

2. Enn er glímt við launamun milli kynja, þrátt fyrir jafnlaunareglu laga. Nýleg rannsókn frá Svíþjóð sýnir að háskólamenntaðar konur með sænskan bakgrunn hafi svipuð laun og ófaglærðir karlmenn með sænskan bakgrunn. Vísbendingar eru um að staðan sé svipuð hjá okkur. Hver er afstaða þíns flokks til kröfunnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, og hvernig hyggist þið að bregðast við ákalli um launajafnrétti?

  • Framsókn telur að vinna þurfi stöðugt gegn launamun milli kynja og telur að allir eigi að fá jöfn laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Við viljum vinna að útrýma kynbundum launamun í íslensku samfélagi Ekki má gleyma því að talsverður árangur hefur náðst á síðustu árum þó enn vanti nokkuð upp á, sérstaklega í ákveðnum atvinnugreinum. Jafnlaunavottun er mikilvægt verkfæri til að ná fullu jafnrétti Að ljúka verkinu krefst líka samstarfs aðila vinnumarkaðarins, bæði á opinberum og almennum markaði við að styrkja framkvæmd jafnlaunareglna, auka fræðslu um jafnréttismál og hvetja fyrirtæki og stofnanir til að rýna þessi mál í eigin ranni.

3. Í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi okkar er orðinn áberandi skortur á fagmenntuðu fólki í tilteknar greinar. Ástæðurnar eru m.a. þær að fólk gefst upp á að sinna störfum á þessum vettvangi vegna stóraukins álags og hverfur því til annarra starfa. Einnig eru dæmi um að fólk skili sér ekki heim að loknu háskólanámi erlendis. Yfirvöld háskólamála hafa ekki farið þá leið að stýra námsvali eða hvetja ungt fólk til náms í þeim greinum þar sem skortur er og ekki hefur tekist að draga úr vinnuálagi á þær stéttir sem eru undir mestu álagi. Hvað hyggst þinn flokkur gera til að bregðast við þessari stöðu?

  • Framsókn er meðvituð um skort á fagmenntuðu fólki í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu og telur mikilvægt að bregðast við þessari stöðu. Við leggjum meðal annars áherslu á eftirfarandi.
  • Aukið framboð á námsleiðum: Framsókn vill hvetja ungt fólk til að velja nám í greinum þar sem skortur er á fagfólki, með því að bjóða upp á styrki eða aðra hvata fyrir þá sem velja að stunda nám í þessum greinum.
  • Bætt starfsumhverfi: Við viljum vinna að því að draga úr vinnuálagi í heilbrigðis- og velferðarþjónustu, til að auka starfsánægju og halda fagfólki í starfi. Þetta felur í sér að skoða hvernig hægt er að auka stuðning við starfsfólk og bæta aðstæður þeirra.
  • Samstarf við háskóla: Við viljum efla samstarf milli háskóla og atvinnulífs til að tryggja að námsframboð sé í sem bestum takti við þarfir samfélagsins og atvinnulífsins. Það hjálpar einnig nýútskrifuðum að komast inn á vinnumarkaðinn að námi loknu.

4. Nýleg lög um Menntasjóð námsmanna eru nú í endurskoðun og hafa námsmenn og nýútskrifaðir bent á ýmsa alvarlega ágalla á hinu nýja kerfi, sérstaklega er þung greiðslubyrði og hátt vaxtastig gagnrýnt. Að sama skapi eru háskólamenntaðir, sem tóku lán í gamla LÍN-kerfinu, að glíma við þunga greiðslubyrði. Algengt er að árlega greiði lántaki sem nemur einum mánaðarlaunum í afborganir auk þess sem greitt er af lánunum langt fram á eftirlaunaaldur. Hvaða sýn hefur þinn flokkur varðandi námslán og námsstyrki? Hvernig hyggist þið koma til móts við kröfur um léttari greiðslubyrði námslána, bæði hjá stúdentum framtíðarinnar og þeim sem nú þegar glíma við að greiða niður námslánaskuldir?

  • Framsókn hefur í gegnum tíðina komið að margvíslegum endurbótum á námslánakerfinu. Við erum þekkjum áhyggjur námsmanna og nýútskrifaðra varðandi greiðslubyrði námslána. Við teljum mikilvægt að halda því endurbótastarfi áfram. Kerfinu má til dæmis beita til að vinna að framgangi markmiða sbr. svar við spurningu 3.
  • Við viljum nefna í upphafi að það skiptir höfuðmáli fyrir ungt fólk og samfélagið allt að ná niður verðbólgu. Það er stærsta einstaka aðgerðir til að bæta lífskjör fólks, hjálpa því að komast í gegnum nám og koma sér upp húsnæði. Að því höfum við verið að vinna og munum gera áfram ef kjósendur veita okkur umboð til þess. Það skiptir gríðarlega miklu máli að verðbólga og vextir haldi áfram að lækka til að létta byrðum af þeim sem eru að greiða af lánum. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta hefur ekki verið auðvelt undanfarin ár, en við erum á réttri leið og þurfum að halda áfram með verkefnið.
  • Frekari áherslur á þessu sviði eru m.a. þessar:
  1. Lækkun vaxta: Við viljum skoða möguleika á að lækka vexti á námslánum til að draga úr greiðslubyrði.
  2. Fleiri styrkir: Við viljum leita leiða til að auka framboð á námsstyrkjum, sérstaklega fyrir námsmenn í viðkvæmum aðstæðum, til að draga úr þörf fyrir lán.
  3. Sveigjanlegar greiðslur: Við viljum skoða möguleika á sveigjanlegri endurgreiðslum námslán, þar sem lántakar geti aðlagað greiðslur að tekjum sínum, sérstaklega í upphafi starfsferils. Jafnframt fjölþættari úrræði vegna greiðsluerfiðleika svo sem skilgreindum leiðum til frestunar á greiðslum eða afskrifta að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt