Mið­flokk­ur­inn

BHM leggur eftirfarandi spurningar fyrir þá flokka og þau framboð sem bjóða fram til Alþingis í kosningunum 30. nóvember 2024.

1. Kaupmáttaraukning háskólamenntaðra stétta hefur verið hverfandi það sem af er öldinni og í tilfelli fólks með meistaragráðu hefur orðið kaupmáttarrýrnun. Hver er afstaða þíns flokks til þessarar stöðu mála og til kröfu háskólamenntaðra um að menntun þeirra verði metin til launa? Sjáið þið fram á einhverjar lausnir sem fært gætu fólki með háskólamenntun fjárhagslegan ávinning af menntun sinni í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum okkar?

2. Enn er glímt við launamun milli kynja, þrátt fyrir jafnlaunareglu laga. Nýleg rannsókn frá Svíþjóð sýnir að háskólamenntaðar konur með sænskan bakgrunn hafi svipuð laun og ófaglærðir karlmenn með sænskan bakgrunn. Vísbendingar eru um að staðan sé svipuð hjá okkur. Hver er afstaða þíns flokks til kröfunnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, og hvernig hyggist þið að bregðast við ákalli um launajafnrétti?

3. Í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi okkar er orðinn áberandi skortur á fagmenntuðu fólki í tilteknar greinar. Ástæðurnar eru m.a. þær að fólk gefst upp á að sinna störfum á þessum vettvangi vegna stóraukins álags og hverfur því til annarra starfa. Einnig eru dæmi um að fólk skili sér ekki heim að loknu háskólanámi erlendis. Yfirvöld háskólamála hafa ekki farið þá leið að stýra námsvali eða hvetja ungt fólk til náms í þeim greinum þar sem skortur er og ekki hefur tekist að draga úr vinnuálagi á þær stéttir sem eru undir mestu álagi. Hvað hyggst þinn flokkur gera til að bregðast við þessari stöðu?

4. Nýleg lög um Menntasjóð námsmanna eru nú í endurskoðun og hafa námsmenn og nýútskrifaðir bent á ýmsa alvarlega ágalla á hinu nýja kerfi, sérstaklega er þung greiðslubyrði og hátt vaxtastig gagnrýnt. Að sama skapi eru háskólamenntaðir, sem tóku lán í gamla LÍN-kerfinu, að glíma við þunga greiðslubyrði. Algengt er að árlega greiði lántaki sem nemur einum mánaðarlaunum í afborganir auk þess sem greitt er af lánunum langt fram á eftirlaunaaldur. Hvaða sýn hefur þinn flokkur varðandi námslán og námsstyrki? Hvernig hyggist þið koma til móts við kröfur um léttari greiðslubyrði námslána, bæði hjá stúdentum framtíðarinnar og þeim sem nú þegar glíma við að greiða niður námslánaskuldir?

Svar Miðflokksins kom ónúmerað svo ætla má að það eigi við allar spurningarnar fjórar:

  • Það hefur sýnt sig að háskólamenntaðar stéttir eru fyrst og fremst að semja við opinbera aðila, ríki og sveitarfélög. Það hlýtur að móta stöðu þeirra á launamarkaði öðru fremur. Freistandi gæti verið að benda á að ef háskólamenntað fólk hefði fleiri tækifæri til að semja við fjölbreyttari hóp viðsemjenda sem hefði skýran fjárhagslegan ábata af menntun og þekkingu viðsemjenda sinna væri auðveldara að ná fram kjarabótum. Stórt samflot getur haft bæði kosti og galla.
  • Miðflokkurinn horfir á heilbrigðisþjónustuna með hagsmuni sjúklinga í huga. Lykilþáttur þess er að reka skilvirka og örugga þjónustu sem gagnast öllum landsmönnum. Það sama á við um mennta- og velferðarkerfið. Þar skipta hagsmunir skjólstæðinga kerfisins mestu máli.
  • Ekki þarf að hafa mörg orð um mikilvægi þeirra starfsstétta sem sinna þessum mikilvægu málaflokkum og störfum með það að markmiði að veita þá þjónustu sem landsmenn eiga skilið. Því leggur Miðflokkurinn áherslu á að starfa í sem mestri samvinnu og samráði við allar starfsstéttir og telur mikilvægt að hlusta á þarfir þeirra og óskir.
  • Miðflokkurinn leggur áherslu á að bæta starfsumhverfi og launakjör heilbrigðisstarfsmanna og stuðla að eðlilegri endurnýjun og starfsánægju þessarar mikilvægu heilbrigðisstéttar. Mikilvægt er að halda þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem þegar eru innan heilbrigðiskerfisins í starfi, draga úr brottfalli, fá þá til starfa sem þegar hafa hætt og skapa hvata til að fá menntað fólk heim erlendis frá.
  • Nánast allar rannsóknir sýna að staða jafnréttismála hér á landi er eins og best verður á kosið í alþjóðlegum samanburði. Það þýðir alls ekki að ekki sé unnt að gera betur.
  • Mikilvægt er að tryggja öllum námsmönnum jafnrétti til náms, óháð búsetu, kyni eða efnahag. Miðflokkurinn hefur stutt ýmsar hvetjandi aðgerðir og þannig hefur flokkurinn talað fyrir því að heilbrigðisstarfsmenn njóti þess í lækkun námslána kjósi þeir að vinna úti á landi. Kjör og fyrirkomulag námslána hljóta að vera til sífelldrar endurskoðunar og Miðflokkurinn styður aðgerðir sem stuðla að jafnrétti til náms, óháð búsetu, kyni eða efnahag eins og áður sagði.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt