1. Kaupmáttaraukning háskólamenntaðra stétta hefur verið hverfandi það sem af er öldinni og í tilfelli fólks með meistaragráðu hefur orðið kaupmáttarrýrnun. Hver er afstaða þíns flokks til þessarar stöðu mála og til kröfu háskólamenntaðra um að menntun þeirra verði metin til launa? Sjáið þið fram á einhverjar lausnir sem fært gætu fólki með háskólamenntun fjárhagslegan ávinning af menntun sinni í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum okkar?
- Píratar leggja áherslu á réttlátt og gegnsætt samfélag þar sem menntun og færni eru metin að verðleikum. Kaupmáttarrýrnun háskólamenntaðra, sérstaklega þeirra með meistaragráðu, er óásættanleg og dregur úr hvata til menntunar. Við viljum bæta launastefnur opinbera og einkageirans, draga úr skattbyrði lág- og millitekjuhópa, og tryggja kaupmáttaraukningu með sértækum aðgerðum. Mikilvægt er að auka stöðugleika í efnahagslífi, styðja stéttarfélög og efla samstarf á vinnumarkaði. Ísland á að vera fyrirmynd í að verðlauna menntun, með lausnum sem byggja á sanngirni og langtímasýn.
2. Enn er glímt við launamun milli kynja, þrátt fyrir jafnlaunareglu laga. Nýleg rannsókn frá Svíþjóð sýnir að háskólamenntaðar konur með sænskan bakgrunn hafi svipuð laun og ófaglærðir karlmenn með sænskan bakgrunn. Vísbendingar eru um að staðan sé svipuð hjá okkur. Hver er afstaða þíns flokks til kröfunnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, og hvernig hyggist þið að bregðast við ákalli um launajafnrétti?
- Við viljum sjá aukna fjárfestingu í menntun, þjálfun og vitundarvakningu um mikilvægi launajafnréttis, bæði hjá vinnuveitendum og starfsfólki. Með þessum aðgerðum stefnum við að því að tryggja að störf séu metin á grundvelli raunverulegs verðmætis þeirra, óháð hefðbundinni kynjaskiptingu. Markmiðið er að launajafnrétti verði ekki aðeins lögbundið markmið heldur staðreynd í daglegu lífi allra á vinnumarkaði.
Launamunur kynjanna er enn til staðar, atvinnutekjur kvenna eru enn um 21% lægri en karla á Íslandi. Í stefnu Pírata um jafnréttismál kemur fram að helsta ástæða launamunar kynjanna er kynjaskiptur vinnumarkaður og vanmat á hefðbundnum kvennastörfum. Píratar vilja leiðrétta kerfisbundið vanmat á kvennastörfum og tryggja að hægt sé að bera saman jafnverðmæt störf þvert á vinnustaði. Einnig telja Píratar mikilvægt að settar verði reglur um launagagnsæi byggðar á fyrirmynd ESB, en taka sérstakt tillit til íslenska vinnumarkaðarins, og tryggja virkt eftirlit.
3. Í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi okkar er orðinn áberandi skortur á fagmenntuðu fólki í tilteknar greinar. Ástæðurnar eru m.a. þær að fólk gefst upp á að sinna störfum á þessum vettvangi vegna stóraukins álags og hverfur því til annarra starfa. Einnig eru dæmi um að fólk skili sér ekki heim að loknu háskólanámi erlendis. Yfirvöld háskólamála hafa ekki farið þá leið að stýra námsvali eða hvetja ungt fólk til náms í þeim greinum þar sem skortur er og ekki hefur tekist að draga úr vinnuálagi á þær stéttir sem eru undir mestu álagi. Hvað hyggst þinn flokkur gera til að bregðast við þessari stöðu?
- Um er að ræða margþætt vandamál. Háskóla umhverfið á Íslandi er mögulega ekki nógu hvetjandi þar sem nemendur sjá fram á að þurfa að taka mjög íþyngjandi námslán til að getað sinnt námi sínu hérlendis og vera jafnvel á leigumarkaði á sama tíma. Störf í heilbrigðis,- velferðar- og menntakerfinu okkar er lífsnauðsynleg undirstaða í samfélaginu en því miður hafa þessar starfsstéttir verið fjársveltar í of langan tíma. Launin eru of lág og aðilar innan heilbrigðisog velferðarkerfisins þurfa að taka ótal margar auka vaktir til að betri laun. Gera þarf námið aðgengilegra, í stað námslána geta aðilar fengið námsstyrki til að sækja námið en á sama tíma þarf að huga að launakjörum þessara starfsstétta.
4. Nýleg lög um Menntasjóð námsmanna eru nú í endurskoðun og hafa námsmenn og nýútskrifaðir bent á ýmsa alvarlega ágalla á hinu nýja kerfi, sérstaklega er þung greiðslubyrði og hátt vaxtastig gagnrýnt. Að sama skapi eru háskólamenntaðir, sem tóku lán í gamla LÍN-kerfinu, að glíma við þunga greiðslubyrði. Algengt er að árlega greiði lántaki sem nemur einum mánaðarlaunum í afborganir auk þess sem greitt er af lánunum langt fram á eftirlaunaaldur. Hvaða sýn hefur þinn flokkur varðandi námslán og námsstyrki? Hvernig hyggist þið koma til móts við kröfur um léttari greiðslubyrði námslána, bæði hjá stúdentum framtíðarinnar og þeim sem nú þegar glíma við að greiða niður námslánaskuldir?
- Námslán eru gífurlega íþyngjandi á lánþega. Menntun á ekki að leiða til þess að fólk sé skuldsett til æviloka. Huga þarf að breytingum í nýja kerfinu en einnig þarf að koma til móts við aðila með eldri lán. Það er óásættanlegt að þrátt fyrir þunga greiðslubyrði eru margir sem sjá aldrei lánið sitt lækka. Píratar telja að menntun sé máttur og þarf því að leggja meiri áherslu á styrkjakerfi frekar en lánakerfi.
- Píratar telja mikilvægt að tryggja aðgengi að menntun án þess að þung fjárhagsleg byrði fylgi í kjölfarið. Við leggjum áherslu á endurskoðun á fyrirkomulagi námslána með það að markmiði að létta greiðslubyrði bæði fyrir núverandi og fyrrverandi námsmenn.
- Við styðjum sanngjarnt vaxtastig og sveigjanlegri endurgreiðsluskilmála sem taka mið af tekjum og lífsskilyrðum lántakenda. Kerfin eiga að vinna með fólkinu og það er mikilvægt að tryggja að svo sé. Dæmi um hvernig kerfið vinnur gegn fólki er þegar einstaklingur með nokkuð há laun verður fyrir skyndilegu tekjutapi. Þá gerist það að afborganir miðast áfram við laun samkvæmt skattaskýrslu síðasta árs. Í svona tilvikum ætti að vera hægt að sýna fram á tekjutap og óska eftir endurútreikningi á afborgunarsamningi.
- Að auki viljum við kanna leiðir til að auka vægi námsstyrkja, sérstaklega fyrir lágtekjuhópa, til að tryggja að menntun sé raunverulegur ávinningur án þess að draga úr lífsgæðum.
- Menntun er ein mikilvægasta fjárfesting samfélagsins og grundvöllur framfara. Þess vegna er nauðsynlegt að námslánakerfið sé réttlátt og sjálfbært, þar sem hagsmunir námsmanna eru í forgrunni.