1. Kaupmáttaraukning háskólamenntaðra stétta hefur verið hverfandi það sem af er öldinni og í tilfelli fólks með meistaragráðu hefur orðið kaupmáttarrýrnun. Hver er afstaða þíns flokks til þessarar stöðu mála og til kröfu háskólamenntaðra um að menntun þeirra verði metin til launa? Sjáið þið fram á einhverjar lausnir sem fært gætu fólki með háskólamenntun fjárhagslegan ávinning af menntun sinni í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum okkar?
- Menntun á að sjálfsögðu að vera metin til launa, þó eru fleiri þættir sem spila inn í sem vert er að nefna eins og námslánakerfið sem þarf að taka til endurskoðunar. Námslánakerfið hefur verið markaðsvætt og því þarf að breyta strax. Ef fólk kemur úr námi minna skuldsett og með meira á milli handanna eykst kaupmáttur þeirra, sem er allra hagur. Sama á við varðandi húsnæðismarkaðinn en ef hann er í lagi fær fólk tækifæri til að stjórna málum þannig að minni hluti ráðstöfunarfjár fari í kostnað vegna húsnæðis, það á við um fólk innan allra tekjutíunda. Íbúðarhúsnæði á að vera fyrir fyrir fólk, ekki fjárfesta. Skattaafslætti af sölu aukaíbúða þarf að takmarka, slíkir afslættir eiga að vera fyrir venjulegt fólk en ekki fjárfesta. Nauðsynlegt er að setja frekari takmarkanir á skammtímaleigu íbúðarhúsnæðis (Airbnb).
Kjarasamningar síðustu ára hafa fyrst og síðast beinst að því að hækka lægstu laun. Hlutfallslega hafa lægstu laun því hækkað meira en önnur laun. Hvað kaupmátt annarra tekjutíunda varðar þá er auðvitað mikil verðbólga og hátt vaxtastig eitthvað sem gert hefur okkur erfitt fyrir. VG telur nauðsynlegt að bregðast við áhrifum hávaxtastefnu sem bitnar á almenningi, það verður að okkar mati best gert með þrennum hætti; sérstökum vaxtastuðningi samhliða endurskoðaðri útfærslu séreignasparnaðar, með aukinni uppbyggingu leiguhúsnæðis með auknum stofnframlögum og með leigubremsu.
2. Enn er glímt við launamun milli kynja, þrátt fyrir jafnlaunareglu laga. Nýleg rannsókn frá Svíþjóð sýnir að háskólamenntaðar konur með sænskan bakgrunn hafi svipuð laun og ófaglærðir karlmenn með sænskan bakgrunn. Vísbendingar eru um að staðan sé svipuð hjá okkur. Hver er afstaða þíns flokks til kröfunnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, og hvernig hyggist þið að bregðast við ákalli um launajafnrétti?
- Fullt jafnrétti krefst þess að ráðist sé að rótum kynjakerfisins og einkennum þess. Breytingar til lengri tíma krefjast úrbóta á ýmsum sviðum sem ekki eru allar á valdi stjórnvalda, t.d. á sviði uppeldis- og menntamála, en á sama tíma verður að grípa til beinna og tafarlausra aðgerða á öðrum sviðum samfélagsins. Það kallar á heildstæða nálgun og átak allra þátta stjórnkerfisins. Það þarf t.d. að uppræta allar birtingarmyndir kynjamisréttis og brjóta þannig upp kynjakerfi sem er skaðlegt fyrir stöðu, tækifæri og þátttöku allra. Þannig sköpum við betra samfélag óháð kynjum. VG vill draga úr kynskiptingu vinnumarkaðarins og auka jafnræði meðal foreldra í umönnun barna, t.d. með því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.
Uppbygging vinnumarkaðar og valdastofnana er karllæg sem gerir það að verkum að lítill og einsleitur hópur hefur of mikil völd. Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða og tryggja að fjölbreyttar raddir heyrist og að á þær sé hlustað. Kynskiptur vinnumarkaður á sinn þátt í að viðhalda stöðluðum hugmyndum um hlutverk kynjanna. Brýnt er að útrýma kynbundum launamun, brjóta upp staðalímyndir, stuðla að fjölbreyttari fyrirmyndum og meta fólk að verðleikum óháð kyni þess. Mikilvægt er að endurmeta virði kvennastarfa, með tilliti til ábyrgðar og mikilvægis fyrir samfélagið, í þeirri vinnu eiga ríki og sveitarfélög að vera leiðandi. Vanmat á kvennastörfum er ein helsta ástæða kynbundins launamunar, því þarf að breyta.
Vegna kynbundins launamunar, vanmati á virði kvennastarfa og ólaunuðum störfum kvenna eru þær með lægri tekjur yfir ævina og sömuleiðis skert lífeyrisréttindi samanborið við karla. Þetta þarf að leiðrétta. Huga þarf einkum að störfum kvenna og kvára sem eru utan hins hefðbundna vinnumarkaðar, hafa ekki aðgang að stéttarfélögum og er berskjölduð fyrir hvers kyns misnotkun. Nauðsynlegt er að vinnuvikan verði stytt á hinum almenna vinnumarkaði í samræmi við opinbera markaðinn. Tryggja þarf að starfsfólk ríkis og sveitarfélaga fái viðunandi fræðslu um jafnréttismál og þær lagalegu skyldur sem þeim ber að uppfylla í störfum sínum.
3. Í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi okkar er orðinn áberandi skortur á fagmenntuðu fólki í tilteknar greinar. Ástæðurnar eru m.a. þær að fólk gefst upp á að sinna störfum á þessum vettvangi vegna stóraukins álags og hverfur því til annarra starfa. Einnig eru dæmi um að fólk skili sér ekki heim að loknu háskólanámi erlendis. Yfirvöld háskólamála hafa ekki farið þá leið að stýra námsvali eða hvetja ungt fólk til náms í þeim greinum þar sem skortur er og ekki hefur tekist að draga úr vinnuálagi á þær stéttir sem eru undir mestu álagi. Hvað hyggst þinn flokkur gera til að bregðast við þessari stöðu?
- Stóraukið álag í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi okkar er vel þekkt. Þess vegna leggjum við í VG áherslu á hvað menntakerfið varðar að meta störf kennara að verðleikum. Við viljum auka stuðning við kennara og efla þar með nám á öllum skólastigum. VG vill tryggja viðunandi íslenskunám innflytjendabarna, og tryggja þeim mannsæmandi vinnuaðstæður ásamt því að tryggja jöfnun launa kennaramenntaðra til jafns við almennan markað. Lykilþættir almannaþjónustunnar eru öflug félags-, velferðar-, geð- og heilbrigðisþjónusta á samfélagslegum grunni, aðgengi að öruggu húsnæði, jafnrétti til náms og að framfærsla fólks dugi til að lifa heilbrigðu og öruggu lífi. Bætt vinnuaðstaða og kjör heilbrigðisstarfsfólks getur orðið til þess að fleiri sæki menntun á heilbrigðissviði. Eins þarf að bregðast við brotthvarfi heilbrigðisstarfsfólks úr starfi og leita leiða til að fá nýútskrifað fólk til starfa. Því er mikilvægt að skilgreina umfang og eðli verkefna í mönnunarlíkani og tryggja með því aukin gæði og öryggi allra. Heilbrigðisþjónusta skal vera fjármögnuð með skattfé og starfrækt á opinberum grunni. Einkarekstur í ágóðaskyni á ekki heima í heilbrigðisþjónustu.
Hvað fólk sem skilar sér ekki heim að loknu námi varðar má nefna að Svandís Svavarsdóttir, þingkona og fyrrv. innviðaráðherra, hefur nú skilað til þingsins þingsályktunartillögu þess efnis að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að skipa starfshóp sem fari kerfisbundið yfir þær hindranir sem standa í vegi fyrir heimkomu námsmanna erlendis og geri tillögur að lausnum.
Gert er ráð fyrir að Samtök íslenskra stúdenta erlendis (SÍNE) tilnefnI fulltrúa í hópinn en einnig fjármála- og efnahagsráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og heilbrigðisráðherra. Hópnum er ætlað að skila skýrslu með tillögum til ráðherra fyrir 1. maí 2025.
Um þessar mundir eru þúsundir íslenskra námsmanna víða um Evrópu og Ameríku í námi, ekki síst á sviði heilbrigðisvísinda. Þessir námsmenn vilja margir hverjir koma heim að loknu námi en kerfið þvælist of oft fyrir þeim og gerir þeim erfiðara fyrir að taka ákvörðun um að koma heim. Það er bæði réttlætismál en ekki síður þjóðhagslega mikilvægt að námsmenn erlendis eigi greiða leið aftur heim. Íslenskt samfélag þarf fleiri vinnandi hendur á næstu árum og mikilvægt er að ný þekking og ný tækni eigi greiða leið inn í samfélagið. Það er til mikils að vinna fyrir íslenskt samfélag að fá sem flesta íslenska námsmenn erlendis heim með þá mikilvægu þekkingu sem þeir hafa aflað sér.
Skipta má verkefnum væntanlegt starfshóps í tvo aðskilda þætti, annars vegar að losa um hindranir sem eru til staðar í kerfunum, svo sem hjá fæðingarorlofssjóði og í tengslum við sjúkratryggingar, og hins vegar að búa til hvata fyrir fólk til að koma heim. Í þeim efnum mætti horfa til námslánakerfisins eða skattkerfisins, sem gætu skapað jákvæða hvata fyrir námsmenn til að koma heim að loknu námi. Sérstaklega er þetta mikilvægt í tilfellum heilbrigðisstarfsfólks sem í miklum mæli sækir sérfræðinám erlendis.
4. Nýleg lög um Menntasjóð námsmanna eru nú í endurskoðun og hafa námsmenn og nýútskrifaðir bent á ýmsa alvarlega ágalla á hinu nýja kerfi, sérstaklega er þung greiðslubyrði og hátt vaxtastig gagnrýnt. Að sama skapi eru háskólamenntaðir, sem tóku lán í gamla LÍN-kerfinu, að glíma við þunga greiðslubyrði. Algengt er að árlega greiði lántaki sem nemur einum mánaðarlaunum í afborganir auk þess sem greitt er af lánunum langt fram á eftirlaunaaldur. Hvaða sýn hefur þinn flokkur varðandi námslán og námsstyrki? Hvernig hyggist þið koma til móts við kröfur um léttari greiðslubyrði námslána, bæði hjá stúdentum framtíðarinnar og þeim sem nú þegar glíma við að greiða niður námslánaskuldir?
- VG telur að skoða þurfi frekari breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna. Lánþegum hefur fækkað undanfarin ár og mun færri námsmenn nýta sér námsstyrki en áætlanir gerðu ráð fyrir. Rannsóknir hafa bent til þess að íslenskir stúdentar vinni mun meira með námi en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar og fer það gegn markmiðum laganna um að auðvelda námsmönnum að einbeita sér að námi sínu. Vinstri græn vilja hækka hlutfall námsstyrks af lánum enn frekar en gert hefur verið, skoða kosti þess að gera námslán vaxtalaus og að þau falli niður við starfslok að uppfylltum eðlilegum skilyrðum um að námi ljúki fyrir tiltekinn aldur. Fólk á ekki að þurfa að greiða af námslánum sínum í ellinni eða ef fólk fer á örorkulífeyri og getur ekki aflað sér tekna með launaðri vinnu. Er hér um stórt kjaramál að ræða fyrir stóran hóp fólks.