Ég er sjálfstætt starfandi
Sífellt fleiri kjósa að starfa sjálfstætt enda hefur það marga kosti að geta stjórnað bæði vinnutíma sínum og umhverfi. Margir félagar í aðildarfélögum BHM eru sjálfstætt starfandi.
Vissir þú?
...að giggarar, verktakar, einyrkjar og að starfa í harkhagkerfi eru allt hugtök sem ná utan um að starfa sjálfstætt.
Sérfræðingar og netvangar
Í Evrópu og víðar færist í vöxt að háskólamenntað fólk sé sjálfstætt starfandi eða sé bæði í föstu starfi og vinni sem verktakar. Í stuttu máli felast þessar breytingar í því að fyrirtæki og stofnanir velja fremur að útvista einstökum verkefnum en ráða fasta starfsmenn til að sinna þeim.
Ný tækni hefur auðveldað útvistun en hún fer í auknum mæli fram gegnum svokallaða netvanga (e. digital platforms) sem eru vefsíður sem tengja saman kaupendur og seljendur þjónustu.
Þannig geta þau sem starfa sjálfstætt verðlagt sína vinnu eins og þeim þykir sanngjarnt og í takti við eftirspurn.
Að ýmsu að huga
Víðast hvar er ráðningarsamband þó forsenda þess að fólk fái notið vinnumarkaðstengdra réttinda sem ýmist eru bundin í lögum eða kjarasamningum. Þessi réttindi ná yfirleitt ekki nema að mjög takmörkuðu leyti til fólks sem er sjálfstætt starfandi. Í nágrannalöndunum hafa stéttarfélög lýst áhyggjum af stöðu fólks sem vinnur í harkhagkerfinu og beitt sér fyrir bættum réttindum þess.
Það fylgir því talsverð aukavinna að vera sjálfstætt starfandi. Fólk þarf sjálft að standa skil á ýmsum sköttum og gjöldum, svo sem lífeyrissjóðsgreiðslum og tryggingum, ásamt að senda viðeigandi reikninga og gögn inn til stofnana.
Réttindamál
Það er mikilvægt að átta sig á að talsverður munur er á stöðu sjálfstætt starfandi einstaklings og launþega. Lög og kjarasamningar tryggja launþegum ýmis réttindi sem sjálfstætt starfandi njóta ekki.
Þau sem starfa sjálfstætt eiga ekki rétt á:
- Greiddu orlofi
- Orlofs- og desemberuppbót
- Launum fyrir viðurkennda frídaga
- Eru ekki slysatryggð
- Eiga ekki rétt á launum í veikindum
...svo eitthvað sé nefnt.
Þau sem starfa sjálfstætt þurfa því að sjá um að greiða opinber gjöld af launum sínum. Til dæmis staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og iðgjald í lífeyrissjóð.