Álag og streita
Streituvaldar geta verið af ýmsum toga, þ. á m. álag vegna verkefna umfram starfslýsingu, vandamál tengd mönnun, skortur á faglegum stuðningi og léleg samskipti.
Streituvaldar geta verið af ýmsum toga, þ. á m. álag vegna verkefna umfram starfslýsingu, vandamál tengd mönnun, skortur á faglegum stuðningi og léleg samskipti.
Líkamleg einkenni streitu eru einkum þreyta, höfuðverkur og svefnvandamál. Sálfélagsleg einkenni eru m.a. þunglyndi, kvíði og sú tilfinning að verkefnin séu viðkomandi starfsmanni ofviða.
Starfsfólk sem glímir við mikla starfstengda streitu á í erfiðleikum með að takast á við álag. Það sér þó fyrir endann á að leysa verkefnin en veit að það mun kosta mikla vinnu.
Kulnun tekur við þegar úthaldið er búið og viðkomandi hefur gefið upp alla von um að geta tekist á við hin daglegu verkefni. Kulnun er því annað og meira en þreyta í lok vinnudags eða vinnuvikunnar. Merki um kulnun eru einkum kvíði, svefntruflanir, gleymska, sjúkleg þreyta, tilfinningalegur doði og áhugaleysi.
Ef ekki er gripið inn í þær aðstæður og þeirri þróun snúið við getur það haft áhrif á vinnuframlag, tíðni og lengd veikindaforfalla og að lokum leitt til starfsloka.
Vinnuveitendur bera hér mikla ábyrgð en starfsfólk verður einnig að þekkja hættumerkin og leita aðstoðar fagaðila til að koma í veg fyrir að langvarandi streita leiði til kulnunar.
Einstaklingar með skerta starfsorku vegna mikils álags eða kulnunar í starfi eru hvattir til að leita til VIRK þar sem fá má aðstoð fagfólks á sviði endurhæfingar. Þátttöku í úrræðum til starfsendurhæfingar, með endurkomu á vinnumarkað að markmiði, geta fylgt greiðslur endurhæfingarlífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins.