Mygla

Mygla í vinnuumhverfi getur verið alvarleg heilsu starfsfólks.

Atvinnurekendum ber skylda til að vernda starfsfólk gegn hvers konar heilsutjóni sem stafa kann af vinnu þess eða vinnuskilyrðum. Meta þarf áhættuþætti í vinnuumhverfi fólks, þ.m.t. með tilliti til loftgæða innanhúss, og gera úrbætur þar sem þeirra er þörf.

Fólk eyðir mestum hluta daglegs lífs á skrifstofum, í skólum, heilbrigðisstofnunum eða öðrum byggingum. Gæði loftsins sem fólk andar að sér innandyra eru því afar mikilvæg fyrir heilsu þess og velferð. Í leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um loftgæði innandyra árið 2009 kemur fram að þeir sem starfi eða búi í raka- og/eða mygluskemmdu húsnæði, hvort sem í eigin húsnæði eða á vinnustöðum, séu í meiri hættu á því að fá einkenni öndunarerfiðleika og astma.

Gró myglusveppa eru til staðar í lofti utan dyra og berast inn í híbýli fólks og vinnustaði með lofti, vatni og lifandi verum. Þegar myglu er leyft að vaxa stjórnlaust í vinnurými getur hún haft í för með sér alvarleg áhrif á heilsu starfsfólks. Algengasta vandamálið sem veldur mygluvexti á vinnustöðum er raki (í veggjum og öðrum flötum), mikill raki í langan tíma og/eða léleg loftræsting.

Fólk bregst mismunandi við því að vera útsett fyrir myglu í sínu nærumhverfi, allt eftir þáttum eins og magni myglusvepps sem einstaklingur er útsettur fyrir, tegund myglusvepps og heilsufari og næmi einstaklingsins sjálfs. Í sumum tilvikum geta rakaskemmdir og myglusveppseitrun valdið alvarlegu heilsutjóni til skemmri og lengri tíma.

Leiðbeiningar til félagsfólks

BHM hefur gefið út leiðbeiningar/verklag fyrir félagsfólk þar sem lýst er hvernig bregðast skuli við ef mygla greinist á vinnustað eða grunur leikur á myglu. Farið er yfir þær reglur sem gilda um tilkynningar til opinberra aðila (Vinnueftirlit ríkisins / heilbrigðiseftirlit), réttindum félagsfólks er lýst og gerð grein fyrir atvikaskráningu trúnaðarmanns.

Mikilvægt er að trúnaðarmenn upplýsi stéttarfélögin þegar slík mál koma upp þannig að þau hafi sem besta yfirsýn yfir stöðu og þróun þessara mála.

Lesa má um orsakir og áhrif myglu á heilsu fólks á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt