Áreitni og of­beldi í garð starfs­fólks

Ráðstafanir sem greina og koma í veg fyrir áreitni og ofbeldi á vinnustað, þ.m.t. einelti og kynferðislega áreitni eru á ábyrgð vinnuveitanda.

Vinnuveitanda ber við gerð áhættumats að greina áhættuþætti eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldis á vinnustaðnum.

Meta skal slíka áhættuþætti hvort sem atvinnurekandi, stjórnendur og/eða aðrir starfsmenn eiga hlut að máli. Tekið skal tillit til félagslegra þátta, svo sem fjölda og aldurs starfsmanna, kynjahlutfalls meðal starfsmanna, ólíks menningarlegs bakgrunns starfsmanna, skipulags vinnutíma og eðlis starfa á vinnustaðnum.

Vinnuveitanda ber á grunni áhættumats að grípa til viðeigandi aðgerða í því skyni að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustað.

Skyldum vinnuveitanda er nánar lýst í reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr. 1009/2015.

Vinnueftirlit ríkisins (VER) hefur útbúið ítarlegt fræðsluefni gegn kynferðislegri áreitni á vinnustöðum undir yfirskriftinni #TökumHöndumSaman. Sjá eininng leiðbeingar til starfsfólks um fyrstu viðbrögð ef það upplifir eða verður vitni að kynferðislegri áreitni í vinnuumhverfinu.

Á velvirk.is má einnig finna upplýsingar og gagnleg ráð í forvarnarskyni fyrir starfsfólk og stjórnendur.

Stöndum með þolendum á vinnumarkaði

Stöndum með þolenum á vinnumarkaði er heiti á samstarfsverkefni heildarsamtaka launafólks á Íslandi og VIRK-starfsendurhæfingarsjóðs um móttöku þolenda kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Einelti

Einelti er skilgreint sem síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Einelti getur tekið á sig ýmsar myndir, sumt er auðveldara að bera kennsl á en annað. Slík hegðun miðar að því að áreita, móðga, útiloka einhvern félagslega eða hafa neikvæð áhrif á störf viðkomandi. Til þess að um einelti sé að ræða í skilningi laga þá þarf eineltið að eiga sér stað ítrekað og reglulega og yfir ákveðinn tíma.

Kynferðisleg áreitni

Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu þess sem fyrir henni verður, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Kynferðislegt ofbeldi eða þrýstingur um kynferðislega greiða í tengslum við ákvörðun launa eða framgang í starfi teljast til kynferðislegrar áreitni. Eins er um óvelkomna kynferðislega eða kynbundna stríðni og spurningar sem vísa til kynferðislegra athafna, kynhneigðar eða kynvitundar.

Kynbundin áreitni

Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Sem dæmi má nefna þvingaðar athafnir eins og óumbeðið faðmlag, persónulegt rými starfsmanns er ekki virt, óþarfa og/eða óæskileg líkamleg snerting, niðurlægjandi orðalag og/eða athugasemdir vegna kyns eða kynvitundar vinnufélaga, störur og gláp.

Kynbundið ofbeldi

Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

Ofbeldi

Ofbeldi er skilgreint sem hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handa­hófs­kennda sviptingu frelsis.

Ofbeldi á vinnustað er sérhvert atvik þar sem einstaklingi er misboðið viljandi, hótað eða ráðist á þar sem öryggi eða heilsu viðkomandi er stefnt í hættu. Hugtakið nær yfir móðgun, hótanir (með eða án vopna) eða líkamlega eða sálræna árásarhneigð fólks innan eða utan vinnustaðar gegn vinnufélaga.

Ofbeldið getur einnig verið samþætt fordómum í garð ákveðinna þjóðfélagshópa.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt