Kyn­bund­in og kyn­ferð­is­leg áreitni

Ráðstafanir sem greina og koma í veg fyrir áreitni og ofbeldi á vinnustað, þ.m.t. einelti og kynferðislega áreitni eru á ábyrgð vinnuveitanda.

Að tryggja öryggi og vellíðan starfsfólks er ekki aðeins lagaleg skylda heldur einnig mikilvægt fyrir starfsanda, framleiðni og orðspor fyrirtækja. Því er nauðsynlegt að vinnuveitendur sýni frumkvæði og tryggja að öll tilvik séu tekin alvarlega og leyst á réttlátan hátt.

Áreitni og ofbeldi í starfsumhverfi getur haft alvarleg áhrif á líðan starfsfólks og heilsu þeirra, bæði til skemmri og lengri tíma. Þetta eru áhrif sem vinnuveitendur verða að taka alvarlega þar sem þau snerta bæði lagalega skyldu og siðferðislega ábyrgð þeirra.

Skyldur vinnuveitanda

Samkvæmt lögum um vinnuvernd (nr. 46/1980) bera vinnuveitendur ábyrgð á að koma í veg fyrir að áreitni eða ofbeldi fái þrifist í starfsumhverfi. Skyldum vinnuveitanda er nánar lýst í reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr. 1009/2015.

1. Öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi:

Vinnuveitandi ber að tryggja að starfsfólk starfi við aðstæður sem stuðla ekki að óæskilegri hegðun. Þetta felur í sér að vinna markvisst að því að fyrirbyggja áreitni og ofbeldi.

2. Innleiðing verkferla:

Skýrir verkferlar eiga að vera til staðar til að taka á málum sem tengjast áreitni og ofbeldi. Starfsfólk þarf að vita hvernig tilkynna má slík mál og hvaða úrræði eru í boði.

3. Fræðsla og forvarnir:

Skipulögð fræðsla fyrir starfsfólk og stjórnendur um viðeigandi hegðun á vinnustað og hvernig bregðast á við einelti, áreitni eða ofbeldi er nauðsynleg.

4. Viðbrögð við kvörtunum:

Þegar áreitni eða ofbeldi er tilkynnt ber vinnuveitanda að rannsaka málið hratt og faglega. Þolandi skal tryggður stuðningur og vernd á meðan á rannsókn stendur.

5. Eftirlit með framkvæmd:

Stjórnendur skulu reglulega meta áhættuþætti og tryggja að vinnustaðir séu lausir við áreitni og ofbeldi. Þetta getur falið í sér að vinna á grundvelli niðurstaðna áhættumats.

Fræðsla

Vinnueftirlit ríkisins (VER) hefur útbúið ítarlegt fræðsluefni gegn kynferðislegri áreitni á vinnustöðum undir yfirskriftinni #TökumHöndumSaman. Sjá eininng leiðbeingar til starfsfólks um fyrstu viðbrögð ef það upplifir eða verður vitni að kynferðislegri áreitni í vinnuumhverfinu.

Á velvirk.is má einnig finna upplýsingar og gagnleg ráð í forvarnarskyni fyrir starfsfólk og stjórnendur.

Stöndum með þolendum á vinnumarkaði

Stöndum með þolendum á vinnumarkaði er heiti á samstarfsverkefni heildarsamtaka launafólks á Íslandi og VIRK-starfsendurhæfingarsjóðs um móttöku þolenda kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Hugtök (EKKO)

EKKO er skammstöfun fyrir einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi.

Einelti

Einelti er skilgreint sem síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Einelti getur tekið á sig ýmsar myndir, sumt er auðveldara að bera kennsl á en annað. Slík hegðun miðar að því að áreita, móðga, útiloka einhvern félagslega eða hafa neikvæð áhrif á störf viðkomandi. Til þess að um einelti sé að ræða í skilningi laga þá þarf eineltið að eiga sér stað ítrekað og reglulega og yfir ákveðinn tíma.

Kynbundin áreitni

Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Dæmi um kynbundna áreitni er m.a. óviðeigandi talsmáti eða framkoma sem tengist kyni og kynhneigð fólks og niðurlægjandi eða lítillækkandi athugasemdir um kyn einstaklings og getu hans/hennar/þess.

Ólíkt kynferðislegri áreitni felur hegðunin ekki endilega í sér kynferðislegan þátt heldur byggist á mismunun vegna kyns.

Kynferðisleg áreitni

Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðg­andi aðstæðna.

Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Sem dæmi má nefna þvingaðar athafnir eins og óumbeðið faðmlag, persónulegt rými starfsmanns er ekki virt, óþarfa og/eða óæskileg líkamleg snerting, niðurlægjandi orðalag og/eða athugasemdir vegna kyns eða kynvitundar vinnufélaga, sem hefur þau áhrif sem að framan er lýst.

Ofbeldi

Ofbeldi er skilgreint sem hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handa­hófs­kennda sviptingu frelsis. Ofbeldið getur birst sem líkamleg árás eða sem einelti og sálrænt álag.

Ofbeldið getur einnig verið samþætt fordómum í garð ákveðinna þjóðfélagshópa.

Sjá nánar á heimasíðu Vinnueftirlitsins.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt