Dag­leg og viku­leg hvíld

Vinnuvernd og jafnvægi milli ábyrgðar í vinnu og einkalífi búa að baki reglum um hvíldartíma starfsfólks

Lágmarkshvíld og vinnustundir starfsfólks

Í kjarasamningum og IX. kafla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er kveðið á um lágmarksréttindi starfsfólks til hvíldartíma og hámarksvinnutíma.

Löggjöfin byggir á tilskipun 2003/88/EB, sem fjallar um skipulag vinnutíma og tryggir ákveðin grunnréttindi starfsfólks. Í megindráttum skulu vinnuveitendur tryggja eftirfarandi lágmarksréttindi:

  1. Daglegur hvíldartími
    Starfsfólk skal njóta að lágmarki 11 klukkustunda samfelldrar hvíldar á hverjum sólarhring.
  2. Vikulegur hvíldartími
    Starfsfólk skal eiga rétt á að lágmarki einum frídegi í hverri viku.
  3. Hámarksvinnutími á viku
    Vinnutími má að hámarki vera 48 klukkustundir að meðaltali á viku.

Þessar reglur eru hannaðar til að tryggja öryggi og vellíðan starfsfólks á vinnustað og eiga að vera hluti af vinnuskipulagi hvers vinnuveitanda.

Virkur vinnutími

Reglur um daglega og vikulega hvíld starfsfólks byggja á sérstakri skilgreiningu á hugtakinu vinnutími.

Vinnutími er sá tími sem starfsmaður er að störfum, til taks fyrir vinnuveitanda og innir af hendi skyldur sínar. Virkur vinnutími er annað orð yfir þetta hugtak. Hvíldartími er sá tími sem ekki telst til vinnutíma.

Dómafordæmi um ferðalög utan vinnutíma

  • Í dómi Landsréttar (mál nr. 197/2022) var staðfest að tími sem starfsmaður ver í ferðalög utan hefðbundins vinnutíma, að kröfu vinnuveitanda og til annars áfangastaðar en venjulegrar starfsstöðvar, telst til vinnutíma samkvæmt vinnutímatilskipun 2003/88/EB.
  • Þessi niðurstaða byggir á túlkun EFTA-dómstólsins í máli E-11/20 frá 15. júlí 2021, þar sem hugtakið vinnutími var skilgreint með þessum hætti.

Daglegur hvíldartími

Starfsfólk á rétt á að fá að minnsta kosti 11 klukkustundir samfellda hvíld innan 24 stunda tímabils. Þetta tímabil reiknast frá skipulögðu eða venjubundnu upphafi vinnudags starfsmanns. Ef mögulegt er, skal dagleg hvíld ná yfir tímabilið frá kl. 23:00 til 06:00.

Skýringar á upphafi vinnudags:

  • Skipulagður vinnudagur: Ef vinnudagur hefst kl. 8:00, miðast 24 stunda tímabilið við það.
  • Fastur vinnutími: Ef starfsmaður byrjar reglulega kl. 20:00, miðast sólarhringurinn við það tímamark.
  • Vaktavinna: Í vaktavinnu er miðað við merktan vinnudag á vaktskrá. Fyrir aukavaktir í vaktafríi er miðað við síðasta merktan vinnudag.

Samanlagður vinnutími: Allur vinnutími hjá sama vinnuveitanda er lagður saman, óháð fjölda starfa eða ráðningarsamninga.

Frítökuréttur við skerðingu hvíldartíma: Ef starfsmaður er sérstaklega beðinn að mæta aftur til vinnu áður en 11 klukkustunda hvíld er náð, skapast frítökuréttur. Venjulega er bætt 1,5 stund fyrir hverja stundu sem hvíldin skerðist.

Frávík frá daglegum hvíldartíma

  • Vaktaskipti: Heimilt er að stytta samfellda lágmarkshvíld starfsfólks í allt að 8 klukkustundir við skipulagð vaktaskipti. Þetta gildir til dæmis þegar starfsmaður fer af morgunvakt yfir á næturvakt samkvæmt vaktskrá.
  • Yfirvinna: Frávikið á ekki við þegar starfsmaður lýkur yfirvinnu og fer beint á reglubundna vakt eða öfugt.

Þar sem frávikið er undantekning frá reglunni um 11 klukkustunda samfellda hvíld, skal skipuleggja vaktir þannig að slíkar undantekningar séu sem sjaldgæfastar. Þær ættu almennt ekki að eiga sér stað oftar en einu sinni í hverri viku, og vinnan skal vera skipulögð með sem jöfnustum hætti.

  • Sérstakar aðstæður: Hvíld má einnig stytta við sérstakar aðstæður, t.d. þegar almannaheill krefst þess, halda þarf uppi nauðsynlegri þjónustu, eða truflun verður vegna ytri aðstæðna eins og óveðurs.

Frítökuréttur

  • Ef starfsmaður er sérstaklega beðinn um að mæta aftur til vinnu áður en 11 klukkustunda hvíld er náð, skapast frítökuréttur. Venjulega er bætt 1,5 stundum fyrir hverja stundu sem hvíldin skerðist. Ávinnslan tekur einnig til brota úr klukkustundum.
  • Starfsmaður skal ekki mæta aftur til vinnu fyrr en að fullnaðri 11 klukkustunda hvíld, nema hann hafi sérstaklega verið beðinn um það.

Nánari upplýsingar: Aðildarfélög BHM veita nánari upplýsingar um heimildir til frávika frá daglegri hvíld og frítökurétt starfsfólks samkvæmt kjarasamningi.

Upplýsingar um frítökurétt og greiðsla

  1. Skráning frítökuréttar:
    Uppsafnaður frítökuréttur skal skráður og koma fram annaðhvort á launaseðli eða í viðverukerfi vinnustaðar.
  2. Nýting frítökuréttar:
  3. Frítökuréttur skal veittur í samráði við starfsmann, að því gefnu að uppsafnaður réttur sé að lágmarki fjórar stundir. Frí má ekki veita í styttri lotum en fjórum klukkustundum. Leitast skal við að veita frí eins fljótt og unnt er eða með reglubundnum hætti til að koma í veg fyrir að frítökuréttur safnist upp.
  4. Greiðsla fyrir hluta frítökuréttar:
    Starfsmaður getur óskað eftir því að fá greiddan út hluta af áfanganum. Heimilt er að greiða út ½ klukkustund (í dagvinnu) fyrir hverja 1½ klukkustund sem starfsmaður hefur áunnið sér í frítökurétt.
  5. Uppgjör við starfslok:
    Við starfslok skal ótekinn frítökuréttur gerður upp á sama hátt og orlof.
    Frítökuréttur fyrnist ekki og skal alltaf gerður upp í lok ráðningarsambands.

Vikuleg hvíld

Á hverju sjö daga tímabili skal starfsmaður fá að minnsta kosti einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma starfsfólks, þ.e. 35 klst. samfellda hvíld.

Hámarksvinnutími á viku

Hámarksvinnutími starfsmanna á viku að yfirvinnu meðtalinni skal ekki vera umfram 48 klukkustundir að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili.

Næturvinna

Vinnutími næturvinnustarfsmanna skal að jafnaði ekki vera lengri en átta klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili.

Næturvinnustarfsmenn sem eiga við heilsufarsvandamál að stríða sem sannanlega verða rakin til vinnutíma skulu þegar kostur er færðir til í dagvinnustörf sem henta þeim.

Undanþágur

Ákvæði um daglegan og vikulegan lágmarkshvíldartíma starfsfólks gilda ekki um:

  • stjórnendur og þá sem ráða vinnutíma sínum sjálfir,
  • um sérstakar aðstæður sem tengjast starfsemi hins opinbera, svo sem nauðsynlegri öryggisstarfsemi og brýnum rannsóknarhagsmunum á sviði löggæslu, vinnu sem tengist starfsemi almannavarna og eftirlitsstörfum vegna snjóflóðavarna, sbr. 2. gr. vinnuverndarlaga, eða
  • starfsfólk sem vinnur við veitingu þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, eftir því sem nánar er kveðið á um í 53. gr. b. vinnuverndarlaga.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt