Í jafnréttislögum er samræming fjölskyldu- og atvinnulífs skilgreind meðal leiða til að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.
Sú stefnumótun liggur einnig til grundvallar reglum um fæðingar- og foreldraorlof samhliða því meginmarkmiði að tryggja barni samvistir við báða foreldra.
Starfsfólk með þunga fjölskylduábyrgð nýtur aukins starfsöryggis. Óheimilt er að segja fólki upp störfum vegna fjölskylduábyrgðar sem lög skilgreina sem skyldur gagnvart börnum og maka sem búa á heimili starfsmanns og greinilega þarfnast umönnunar hans, svo sem vegna veikinda eða fötlunar.
Samningar á vinnumarkaði sem undirritaðir voru veturinn 2019-2020 um styttingu vinnuvikunnar í allt að 36 virkar stundir er mikið framfaraskref. Með þeim samningum var hvoru tveggja stefnt að umbótum í starfsemi ríkisstofnana og að auka samræmingu vinnu og einkalífs.
Jafnvægi vinnu og einkalífs er verkefni stjórnenda og starfsfólks á hverjum vinnustað. Því er nauðsynlegt að stjórnendur fyrirtækja og stofnana sem og starfsfólk þekki vel og virði hin samningsbundnu skil milli vinnu- og frítíma.