Laun frá vinnuveitanda
Foreldri hefur heimild til að vera frá vinnu á launum í samtals 12 vinnudaga (96 vinnustundir miðað við fullt starf) á hverju almanaksári vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri, enda verði annarri umönnun ekki við komið, sbr. grein 12.8 í kjarasamningi aðildarfélaga BHM og ríkisins.
Í þessum fjarvistum skal greiða starfsmanni dagvinnulaun og vaktaálag samkvæmt reglubundinni varðskrá/vaktskrá. Réttur þessi hefur ekki áhrif á rétt starfsmanns samkvæmt öðrum greinum. Sams konar ákvæði er í samningum BHM við Reykjavíkurborg og sveitarfélögin.
Ef veikindi barns standa lengur en réttur til launa nær, getur foreldri átt rétt á sjúkradagpeningum úr sjúkrasjóði síns stéttarfélags.
Í kjarasamningi SA og BHM (kafli 4.8) er ákvæði um rétt starfsmanna til launa í fjarvistum vegna veikinda barna. Skilyrði launaréttar er að um sé að ræða sjúkt barn undir 13 ára aldri og að annarri umönnun verði ekki komið við. Á hverju 12 mánaða tímabili er rétturinn sem hér segir: Fyrstu sex mánuði í starfi hjá vinnuveitanda: 2 dagar fyrir hvern unninn mánuð. Eftir sex mánaða starf hjá sama vinnuveitanda: 12 dagar á hverju 12 mánaða tímabili.
Í dómi Félagsdóms frá 16. júní 2021 (mál nr. 17/2020) var orðalagið „til aðhlynningar sjúkum börnum“ túlkað á þá leið að undir það félli ekki það að fara með barn sitt til talþjálfunar á vinnutíma, þannig að greiða beri starfsmanni laun á meðan hann sinnir slíku erindi.
BHM hefur lagt áherslu á að réttur fólks til launaðrar fjarveru vegna veikinda barna verði útvíkkaður þannig að hann nái einnig til veikinda eða umönnunar nákominna skyldmenna, s.s. foreldra eða systkina. Krafan er sú að dögunum verði fjölgað og rétturinn nái bæði til barna (til 18 ára aldurs) og nákominna skyldmenna. Þá vill bandalagið að félagsmenn eigi rétt á launaðri fjarveru vegna andláts barns, maka eða náins skyldmennis en réttur til fjarveru á launum vegna andláts nákomins ættingja eða aðstandanda er þegar fyrir hendi í kjarasamningum við Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tryggingastofnun - umönnunargreiðslur
Tryggingastofnun veitir foreldrum fatlaðra og langveikra barna fjárhagslegan stuðning í formi umönnunargreiðslna. Á heimasíðu stofnunarinnar kemur fram fram að markmið umönnunargreiðslna sé að veita fjárhagslegan stuðning til framfærenda fatlaðra og/eða langveikra barna auk barna með þroskaraskanir. Um félagsleg aðstoð er að ræða sem veitt er þegar umönnun er krefjandi og kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu, meðferðar og þjálfunar er orðinn umtalsverður.
Umönnunarleyfi
Á vettvangi Evrópusambandsins hafa nýlega verið samþykktar reglur um leyfi frá störfum í allt að 5 vinnudaga á ári fyrir hvern starfsmann sem veitir persónulega umönnun eða stuðning við ættingja eða einstakling sem býr á sama heimili, sbr. tilskipun (ESB) 2019/1158. Sambærilegar reglur hafa ekki verið innleiddar á Íslandi.
Umönnunarleyfi byggir á markmiðum um að jafna byrði milli foreldra vegna umönnunar með sambærilegum hætti og reglur um fæðingar- og foreldraorlof og tengjast því markmiðum um samræmingu fjölskylduábyrgðar og atvinnuþátttöku.
Unnið er að upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn. Í framhaldinu verður hún leidd í lög/kjarasamninga hér á landi.