Foreldri er heimilt að framselja sex vikur af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins, sbr. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof.
Heildarréttur foreldra er því 12 mánuðir.
Greiðslur
Mánaðarlegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldris í fullu fæðingarorlofi eru 80% af meðaltali heildarlauna, að hámarki 800.000 kr. (mv. 1.1.2025).
Ákvörðun meðallauna miðast við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur 6 almanaksmánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann mánuð sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur.
Einungis er miðað við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, án tillits til þess hvort um laun í vinnusambandi er að ræða eða reiknað endurgjald sjálfstætt starfandi einstaklings. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.
Útreikningur á greiðslum byggist á upplýsingum um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda.
Nánari upplýsingar um ákvörðun réttinda eru veittar á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs.
Tilkynning um töku fæðingarorlof
Þegar starfsmaður hyggst nýta sér rétt til fæðingarorlofs skal hann tilkynna það vinnuveitanda eins fljótt og kostur er og í síðasta lagi átta vikum fyrir fyrirhugaðan fæðingardag barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. 12. gr.
Vilji starfsmaður breyta áður tilkynntum upphafsdegi fæðingarorlofs eða tilkynna um nýtt tímabil fæðingarorlofs, ber honum að tilkynna það vinnuveitanda þremur vikum fyrir hinn nýja fyrirhugaða upphafsdag fæðingarorlofs.
Tilhögun fæðingarorlofs
Starfsmaður á rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi.
Með samkomulagi við vinnuveitanda er þó heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri en eitt tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Þó má aldrei taka fæðingarorlof skemur en hálfan mánuð í senn, sbr. 13. gr.
Ef vinnuveitandi getur ekki komið til móts við óskir starfsmannsins skulu þeir komast að samkomulagi um aðra tilhögun fæðingarorlofsins innan viku frá móttökudagsetningu tilkynningar um töku fæðingarorlofs. Skal það gert skriflega og ástæður fyrir breyttri tilhögun tilgreindar.
Uppsagnarvernd
Óheimilt er að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hefur tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs, eða er í fæðingar- eða foreldraorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni, sbr. 50. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof.
Sama gildir um uppsagnir þungaðrar konu og konu sem nýlega hefur alið barn.
Vinnuveitandinn verður að sína fram á gildar ástæður fyrir uppsögn.
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 318/2008 var fjallað um uppsögn starfsmanns eftir að hann hafði tilkynnt vinnuveitanda um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs. Vinnuveitandi rökstuddi uppsögn með vísan til skipulagsbreytinga, staðan yrði lögð niður og verkefnum útvistað til auglýsingastofu. Hæstiréttur taldi að félaginu hefði ekki tekist að færa sönnur á gildar ástæður fyrir uppsögn í skilningi laganna. Fram kom að auglýsingastofan átti samkvæmt samningnum einungis að verja tíma sem svaraði til um fjórðungs af fullum mánaðarlegum starfstíma umrædds starfsmanns. Engar upplýsingar um sparnað af uppsögninni voru lagðar fram eða sýnt fram á annað hagræði í rekstri sökum uppsagnarinnar.
Sjá einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 257/2011.
Endurkoma úr fæðingarorlofi
Starfsmaður á rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning.