Rétturinn til foreldraorlofs stofnast við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til foreldraorlofs sem er ekki framseljanlegur, sbr. XI. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof.
Starfsmaður öðlast rétt til foreldraorlofs eftir að hafa starfað samfellt í 6 mánuði hjá sama vinnuveitanda. Á það við hvort sem starfsmaðurinn hefur verið ráðinn tímabundið eða ótímabundið.
Foreldraorlofi fylgir ekki réttur til greiðslu launa úr Fæðingarorlofssjóði líkt og gildir um greiðslur í fæðingarorlofi.
Tilkynning um töku foreldraorlofs
Foreldri sem hyggst nýta sér rétt til foreldraorlofs skal tilkynna vinnuveitanda það eins fljótt og kostur er eða í síðasta lagi 6 vikum fyrir fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins.
Nálgast má eyðublað fyrir tilkynningu foreldraorlofs hjá Vinnumálastofnun.
Við það er miðað að foreldri taki foreldraorlof í einu lagi, í samræmi við ákvæði laganna um rétt á foreldraorlofi í fjóra mánuði.
Með samkomulagi við vinnuveitanda er starfsmanni þó heimilt að haga foreldraorlofi með öðrum hætti, t.d. þannig að orlofið skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli.
Geti vinnuveitandi ekki fallist á óskir starfsmanns um tilhögun foreldraorlofs skal hann að höfðu samráði við starfsmann tilkynna um aðra tilhögun innan viku frá móttöku tilkynningar um fyrirhugaða töku orlofs. Frestun er eingöngu heimil þegar fyrir hendi eru sérstakar aðstæður í rekstri fyrirtækis/stofnunar sem gera slíkt nauðsynlegt.
Lengra foreldraorlof
Starfsmanni er óheimilt nema með sérstöku samþykki vinnuveitanda að taka lengra foreldraorlof en fjóra mánuði á hverju tólf mánaða tímabili. Af því leiðir að starfsmaður sem á fleiri en eitt barn undir 8 ára aldri, getur ekki sótt um lengra foreldraorlof en 4 mánuði á einu og sama árinu nema til komi sérstakt samþykki atvinnurekanda.
Réttur fellur niður
Réttur til foreldraorlofs fellur niður er barnið nær átta ára aldri.
Hafi réttur til foreldraorlofs fallið niður ónýttur að hluta eða öllu leyti við átta ára aldur barns verður sá réttur virkur aftur komi til þess að barn greinist síðar með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun, en áður en það verður fullra átján ára.
Starfstengd réttindi
Starfstengd réttindi sem starfsmaður hefur áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafsdegi foreldraorlofs haldast óbreytt til loka orlofsins ásamt þeim breytingum sem kunna að hafa orðið á áunnum réttindum á grundvelli laga eða kjarasamninga.
Endurkoma í starf og uppsagnarvernd
Starfsmaður á rétt á að hverfa aftur til starfs síns að loknu foreldraorlofi.
Sömu reglur um uppsagnarvernd gilda og í tilviki fæðingarorlofs.
Um ákvörðun foreldraorlofs og skilyrði að öðru leyti er vísað til XI. og XII. kafla laga um laga um fæðingar- og foreldraorlof.