Rétt­ur­inn til að af­tengj­ast

Mikilvægt er að starfsfólk sinni ekki vinnutengdum verkefnum utan vinnutíma.

Stafræn tækni skapar starfsfólki og stofnunum sveigjanleika í samskiptum og vinnuskilum sem ekki eru bundin við hina hefðbundnu starfsstöð. Ef ekki er að gætt getur slík vinnutilhögun þó leitt til óhóflegra inngripa í frítíma fólks og máð út skil vinnu og einkalífs. Í ljósi reynslunnar hefur umræðan því beinst að mikilvægi réttarins til að aftengjast í lok vinnudags.

Í samningum aðildarfélaga BHM við sveitarfélögin er nú fjallað um þetta efni undir heitinu "Ónæði utan vinnutíma".

Ákvæðið er svohljóðandi:

"Starfsmanni ber ekki að svara erindum tengdu starfi hans utan vinnutíma nema í neyðartilvikum. Gefi vinnuveitandi upp símanúmer eða netfang starfsmanns og feli honum að svara erindum fyrir hönd vinnuveitanda utan vinnutíma, enda sé slíkt tilgreint í starfslýsingu, skal þá fyrirfram samið um greiðslu fyrir slík verkefni. Greinin á ekki við um stjórnendur eða starfsmenn sem hafa starfsskyldur af þessu tagi í starfslýsingu sinni og tillit hefur verið tekið til við launasetningu starfa þeirra."

Vinnutímatilskipunin (tilskipun 2003/88/EB) vísar til fjölda réttinda sem óbeint tengjast þessum rétti, einkum ákvæði um daglegan og vikulegan hvíldartíma, sem hafa þann tilgang að vernda heilsu og öryggi starfsmanna.

Í Evrópustoð félagslegra réttinda (European Pillar of Social Rights) er ekki vísað sérstaklega til réttarins til að aftengjast. Krafa launafólks um að geta notið frítíma síns án truflunar fellur þó að markmiðum stoðarinnar um betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs (nr. 9) og persónuvernd (nr. 10).

Evrópuþingið samþykkti í byrjun árs 2021 ályktun þar sem skorað er á framkvæmdastjórn ESB að leggja fram tillögu að tilskipun til að tryggja rétt starfsfólks til að aftengjast. Þar kemur fram að mikil notkun stafrænna tækja til fjarvinnu framlengi umsaminn vinnutíma og rjúfi mörkin milli vinnu og einkalífs. Tryggja verði rétt starfsfólks til að neita verkefnum utan vinnutíma án þess að óttast viðurlög eða áminningu.

Heildarsamtök launafólks í Evrópu (ETUC) annars vegar og samtök atvinnurekanda á almennum og opinberum vinnumarkaði hins vegar (BusinessEurope, SGI Europe and SMEunited) undirrituðu sameiginlega starfsáætlun í lok júní 2022, til áranna 2022-24, sem m.a. geymir áform um endurskoðun rammasamnings um fjarvinnu frá 2002. Rétturinn til að aftengjast er meðal viðfangsefna í þeirri endurskoðun.

Unnið er að því á samkomulag aðila verði sett í búning löggjafar á vettvangi Evrópusambandsins og öðlist með þeim hætti víðtækt og almennt gildi í aðildarríkjum sambandsins.

Nánari upplýsingar:

European Parliament's briefing – the right to disconnect

Rannsókn á vegum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) staðfestir nauðsyn þess að starfsmenn geti aftengst, þ. á m. starfsfólk í fjarvinnu.

Guiding Principles on Implementing Workers’ Right to Disconnect. Report of the European Law Institute, 2023

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt