Fæð­ing­ar­or­lof

Sjálfstætt starfandi einstaklingar eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Ávinnsla réttar

Réttur til fæðingarorlofs myndast þegar:

  • foreldri hefur unnið á Íslandi samfellt síðustu 6 mánuðina fyrir fæðingardag barns,
  • í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði,
  • sem starfsmaður vinnuveitanda eða sjálfstætt starfandi einstaklingur.

Fullt starf sjálfstætt starfandi miðast við að viðkomandi hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt og tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi eða launum er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein eða sem samkvæmt kjarasamningi telst fullt starf.

Nauðsynlegt er að fólk reikni sér ekki of lágt endurgjald fyrir vinnu sína þar sem upphæð þess hefur bein áhrif á þá greiðslu sem umsækjandi á rétt í fæðingarorlofi.

Upplýsingar um reiknað endurgjald eru birtar á heimasíðu Skattsins.

Ákvörðun greiðslna

Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði nema 80% af meðaltali heildartekna þeirra á tólf mánaða tímabili sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann mánuð sem barn kemur á heimilið við ættleiðingu.

Hámarks- og lágmarksfjárhæðir þessara greiðslna eru endurskoðaðar árlega við afgreiðslu fjárlaga og taka mið af þróun launa, verðlags og efnahagsmála.

Hámarksgreiðsla á mánuði er 800.000 kr. (árið 2025).

Tilhögun fæðingarorlofs

Foreldrar eiga samanlagt rétt á 12 mánaða fæðingarorlofi vegna barns, þar sem hvoru foreldri eru úthlutaðir 6 mánuðir.

Heimilt er að framselja allt að 6 vikur af sínum rétti til hins foreldrisins. Fæðingarorlof má hefja allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns, og fellur rétturinn niður þegar barnið nær 24 mánaða aldri.

Umsóknarferli

Sjálfstætt starfandi einstaklingar skulu sækja um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til Vinnumálastofnunar í síðasta lagi sex vikum fyrir áætlaða fæðingu barns.

Umsóknin er rafræn og þarf að fylgja með henni tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs, afrit af skattframtali eða öðrum gögnum sem staðfesta tekjur, og vottorð um væntanlegan fæðingardag barns.

Ráð í tíma tekið

Félagsfólki er ráðlagt að hafa samband við Vinnumálastofnun með góðum fyrirvara til að fá nauðsynlegar upplýsingar um réttindi og skyldur og meðferð mála er varða sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt