Skattar

Sjálfstætt starfandi einstaklingar þurfa að fylgja ákveðnum reglum varðandi skráningu rekstrar síns og skil á opinberum gjöldum. Felur það meðal annars í sér skráningu á launagreiðendaskrá og, eftir atvikum, virðisaukaskattsskrá. 

Þessar skyldur eru nauðsynlegar til að tryggja réttindi eins og rétt til atvinnuleysisbóta og fæðingarorlofs, sem og til að uppfylla lagalegar skyldur varðandi skatta og gjöld.

Launagreiðendaskrá

Einstaklingur í atvinnurekstri á eigin kennitölu sem greiðir laun, þar með talið reiknað endurgjald til sjálfs síns, þarf að skrá sig á launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra.

Skal það gert eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst.

Við útborgun launa eða reiknuðu endurgjaldi ber launagreiðanda að halda eftir staðgreiðslu skatta og skila henni ásamt tryggingagjaldi til innheimtumanns. Launatímabil er að hámarki einn mánuður, gjalddagi er 1. dagur næsta mánaðar eftir launamánuð og eindagi er 15. hvers mánaðar.

Ef umfang rekstrar er óverulegt og reiknað endurgjald er lægra en 450.000 kr. á ári, þarf ekki að skila staðgreiðslu mánaðarlega. Í slíkum tilvikum eru launin aðeins talin fram á skattframtali og launaframtali, og tekjuskattur, útsvar og tryggingagjald eru lögð á við álagningu.

Sjá nánar á heimasíðu skattsins.

Virðisaukaskattsskrá

Ef sjálfstætt starfandi einstaklingur hyggst selja vörur eða þjónustu sem eru virðisaukaskattsskyld, þarf hann að skrá sig á virðisaukaskattsskrá.

Þetta er gert með því að fylla út eyðublað RSK 5.02 og skila því til ríkisskattstjóra.

Sjá nánar á heimasíðu skattsins.

Reiknað endurgjald

Sjálfstætt starfandi einstaklingum ber að reikna sér endurgjald fyrir vinnu sína í eigin rekstri samkvæmt viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra.

Reiknað endurgjald miðast við þau laun sem almennt tíðkast fyrir sambærilega vinnu á vinnumarkaði.

Skatturinn gefur árlega út viðmiðunarreglur um lágmarksfjárhæðir fyrir mismunandi starfsstéttir.

Af þessu reiknaða endurgjaldi ber að greiða staðgreiðslu skatta, tryggingagjald og iðgjald í lífeyrissjóð.

Vakni spurningar um reiknað endurgjald í þinni starfsgrein má ávalt leita ráða hjá sínu aðildarfélagi innan BHM.

Rekstrarkostnaður

Samkvæmt lögum um tekjuskatt er heimilt að draga frá tekjum þau gjöld sem varið er til að afla, tryggja og viðhalda tekjum, að því gefnu að þau séu ekki sérstaklega undanskilin í lögum.

Rekstrarkostnaður, svo sem launagreiðslur, leiga á húsnæði, hráefniskaup og annar kostnaður sem tengist beint starfseminni, telst því frádráttarbær.

Kostnaður þarf að vera réttilega skráður í bókhald og studdur reikningum, kvittunum eða öðrum fullnægjandi gögnum.

Sjá nánar reglugerð um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.

Ráðgjöf og stuðningur

Ef þú ert að hefja rekstur eða starfar sem sjálfstætt starfandi er mikilvægt að þekkja þær skyldur sem því fylgja – bæði skattalegar og lagalegar.

Félagsfólki BHM er eindregið ráðlagt að leita sér ráðgjafar hjá:

  • Endurskoðanda eða löggiltum bókara, vegna bókhalds, skattskila og uppgjöra
  • Skattinum, með því að senda skriflega fyrirspurn í gegnum Mínar síður eða á heimasíðu skattsins.

Rétt undirbúningur getur skipt sköpum fyrir reksturinn – og tryggt þér öryggi og réttindi til framtíðar.

Ef þú ert félagsmaður getur þú einnig haft samband við þitt aðildarfélag innan BHM til að fá ráðgjöf og upplýsingar um réttindi þín sem sjálfstætt starfandi – þar með talið aðgengi að sjúkrasjóðum og styrkjum til starfsþróunar og endurmenntunar.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt