Trygg­ingar, lög­bundnar og val­kvæðar

Tryggingar sjálfstætt starfandi einstaklinga byggja á samblandi lögbundinna og valkvæðra trygginga, allt eftir rekstrarformi og áhættuþáttum í starfsemi þeirra.

Lögbundnar tryggingar (skyldubundnar)

Sjúkratryggingakerfið (SÍ)

Sem sjálfstætt starfandi einstaklingur ert þú sjálfkrafa sjúkratryggður á Íslandi á grundvelli lögheimilisskráningar, sem veitir þér rétt til almennrar heilbrigðisþjónustu.

Þetta veitir rétt til niðurgreiddrar heilbrigðisþjónustu, svo sem læknisþjónustu, sjúkrahúsþjónustu og lyfjakostnaðar.

Sjálfstætt starfandi einstaklingar eru einnig slysatryggðir við störf sín, sbr. lög um slysatryggingar almannatrygginga nr. 45/2015. Ef þú slasast við vinnu, átt þú rétt á bótum samkvæmt þessum lögum. Ekki þarf að greiða sérstök iðgjöld til Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) til að njóta þessarar slysatryggingar.

Rétt er að hafa í huga að slysatryggingar almannatrygginga ná ekki yfir öll tilvik. Því gæti verið skynsamlegt að íhuga viðbótarslysatryggingar eða aðrar tryggingar sem henta þínum aðstæðum, til að tryggja fullnægjandi vernd

Lífeyrissjóðir / Tryggingastofnun ríkisins

Lögbundið lágmarksiðgjald er 15,5%. Heimilt er að greiða 3,5% af því í tilgreinda séreign. Stofn til ákvörðunar iðgjalds er reiknað endurgjald, sem er sú upphæð sem einstaklingurinn skráir sem eigin laun í skattframtali og er grundvöllur tryggingagjalda og annarra opinberra gjalda.

Reglubundnar greiðslur iðgjalda tryggja að sjálfstætt starfandi einstaklingar byggi upp réttindi til eftirlauna og örorkubóta, rétt eins og almennt launafólks.

Samkvæmt lögum um almannatryggingar njóta þeir tryggingaverndar sem skráð hafa lögheimili sitt hér á landi. Ávinnsla réttar til elli- og örorkulífeyris hjá Tryggingastofnun ríkisins er óháð því hvort viðkomandi eru virkir á vinnumarkaði, eða starfi sem launafólk eða sjálfstætt starfandi.

Atvinnuleysistryggingar

Sjálfstætt starfandi einstaklingar eiga rétt á atvinnuleysisbótum ef þeir uppfylla ákveðin skilyrði, þar á meðal að hafa greitt staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæðum ríkisskattstjóra.

Reiknað endurgjald er sú fjárhæð sem sjálfstætt starfandi einstaklingur reiknar sér sem laun fyrir vinnu sína í eigin rekstri.

Fæðingarorlof

Sjálfstætt starfandi eiga líkt og aðrir foreldrar sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að sex mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur.

Réttur til fæðingarorlofs byggir á því að umsækjandi hafi greidd staðgreiðsluskatta af sínum tekjum með reglunbundnum hætti og tryggingagjald.

Valkvæðar tryggingar (mælt með)

Mælt er með því að sjáflstætt starfandi hafi samband við sitt tryggingafélög og fái ráðgjöf um þær tryggingar sem viðeigandi eru í atvinnustarfsemi þeirra. Hér eru taldir upp helstu tryggingaflokkar.

Sjúkra- og örorkutrygging

Þessi trygging veitir þér tekjutryggingu ef þú verður óvinnufær vegna veikinda eðaslyss. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga sem hafa ekki sama öryggisnet og launþegar. Vegna takmarkana á sjúkradagpeningum hjá SÍ er algengt að sjálfstætt starfandi kaupi sér sjúkra- og örorkutryggingar hjá tryggingafélögum.

Líftrygging

Tryggir aðstandendur þína fjárhagslega ef þú fellur frá. Líftryggingar eru hannaðar til að veita fjárhagslegt öryggi fyrir aðstandendur þína ef þú fellur frá vegna slyss eða sjúkdóms.

Rekstrarstöðvunartrygging

Rekstrarstöðvunartrygging er hönnuð til að bæta tekjutap sem verður þegar rekstur fyrirtækis stöðvast vegna óvæntra atvika, svo sem eldsvoða, náttúruhamfara eða bilana á mikilvægum búnaði.

Þessi trygging tryggir að fyrirtækið fái bætur fyrir það tekjutap sem verður á meðan reksturinn er í lamasessi, sem hjálpar til við að standa straum af föstum kostnaði eins og launum, leigu og öðrum útgjöldum.

Fasteigna- og innbústrygging fyrir vinnuaðstöðu

Tryggir húsnæði og búnað gegn tjóni, svo sem vegna vatnsleka eða innbrota.

Kaskótrygging fyrir atvinnubíla eða tæki

Ef þú notar dýr tæki eða ökutæki í rekstri þínum getur kaskótrygging verndað gegn fjárhagslegu tjóni ef þau verða fyrir skemmdum eða er stolið.

Netöryggistrygging

Ef þú vinnur með viðkvæm gögn eða ert háður tölvukerfum í rekstri þínum getur þessi trygging verndað gegn tjóni vegna netárása eða gagnaleka. Netöryggistrygging er hönnuð til að vernda fyrirtæki og einstaklinga gegn fjárhagslegu tjóni sem getur orðið vegna netárása, gagnaleka eða annarra öryggisatvika í stafrænu umhverfi.

Þar sem netógnir eru sífellt að aukast, er mikilvægt fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga að meta áhættu sína í stafrænu umhverfi og íhuga netöryggistryggingu sem hluta af heildrænni áhættustýringu.

Starfsábyrgðartrygging

Verndar þig ef þú veldur tjóni á þriðja aðila í tengslum við starfsemi þína. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir þá sem veita sérfræðiþjónustu eða ráðgjöf.

Sumar starfsgreinar, svo sem lögmenn, endurskoðendur og fasteignasalar, er skylt að hafa starfsábyrgðartryggingu.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt