Höf­und­ar­rétt­ur og tengd rétt­indi

Sjálfstætt starfandi einstaklingar, sérstaklega þeir sem starfa á sviði skapandi greina, tækni og ráðgjafar, þurfa að hafa skilning á höfundarrétti og sambærilegum réttindum til að tryggja réttindi sín og forðast deilur viðskiptavina og samstarfsaðila.

Höfundarréttur

Höfundum er tryggður einkaréttur til að afrita og birta verk sín, bæði í upprunalegri og breyttri mynd. Ásamt höfundum njóta flytjendur, framleiðendur, útgefendur og útvarpsfyrirtæki svokallaðra „skyldra réttinda“ fyrir listflutning, hljóð- og myndrit, útvarp og sjónvarp. Óheimilt er að nýta höfundarréttarvarið efni í atvinnuskyni án leyfis rétthafa.

Höfundalög innihalda einnig takmarkanir á höfundarétti, meðal annars varðandi verndartíma, hvað getur notið verndar og aðgengi almennings í sérstökum tilvikum, eins og vegna fötlunar eða menntunar.

Réttindi höfundar samkvæmt höfundalögum

Höfundaréttur tryggir höfundi bæði einkarétt og sæmdarrétt yfir verkum sínum samkvæmt höfundalögum.

1. Fjárhagsleg réttindi:

  • Höfundur hefur einkarétt til að gera eintök af verki sínu og gera það aðgengilegt almenningi, hvort sem er í upprunalegri eða breyttri mynd.
  • Rétturinn nær til endurgerðar, birtingar og dreifingar, svo sem í bókum, upptökum, kvikmyndum eða á netinu.
  • Höfundur getur framselt réttindi sín, til dæmis með samningi við útgefanda, framleiðanda eða vinnuveitanda.

2. Sæmdarréttur:

  • Höfundur á rétt á að verk sé eignað honum og að nafn hans sé tilgreint við birtingu.
  • Höfundur hefur rétt til að ráða hvenær og hvernig verk er birt opinberlega.
  • Höfundur getur bannað ótilhlýðilega eða ósæmilega meðferð verks síns, svo sem rangfærslur eða breytingar sem rýra gæði eða merkingu þess.

Hvað ber að varast í samningum?

Sérstaklega þegar sjálfstætt starfandi gera samninga, þurfa þeir að tryggja að réttindi þeirra séu skýr og að þeir séu ekki að afsala sér mikilvægum réttindum óvart.

1. Réttindi og umfang framsals

  • Samningur þarf að skýra hvaða réttindi eru framseld og í hvaða tilgangi (t.d. útgáfa, afnot í ákveðinn tíma, netbirting o.s.frv.).
  • Gæta þess að framsalið sé ekki víðtækara en nauðsynlegt er.
  • Ef um er að ræða höfundarverk á sviði tónlistar, kvikmynda eða hönnunar, þarf að skilgreina stafræna dreifingu sérstaklega.

2. Tímalengd og svigrúm til endurnýjunar

  • Ef réttindi eru framseld, er mikilvægt að samningurinn takmarki tímann (t.d. 5 ár í stað „til eilífðar“).
  • Tryggja rétt til endurskoðunar eða afturköllunar ef verkið er ekki notað innan ákveðins tíma.

3. Þóknun og greiðsluskilmálar

  • Skilgreina hvernig og hvenær höfundur fær greitt (t.d. fast verð, hlutdeild í sölu, prósenta af tekjum).

4. Sæmdarréttur og breytingar á verki

  • Höfundur ætti að tryggja rétt sinn til að vera tilgreindur sem höfundur.
  • Skýra hvort og hvernig verkið má breyta, sérstaklega ef það er listaverk, texti eða tónlist.

5. Trygging gegn óheimilli notkun

  • Koma í veg fyrir að verkið sé notað í öðrum tilgangi en samið var um, t.d. í auglýsingum eða á öðrum miðlum.
  • Skilgreina ábyrgð ef samningsaðili misnotar höfundarverkið.

Samningsráð fyrir sjálfstætt starfandi höfunda

  • Aldrei skrifa undir samning án þess að hafa lesið hann vel.
  • Leita ráða hjá lögfræðingi eða höfundaréttarsérfræðingi ef vafi leikur á.

Vörumerki, hönnunarvernd og viðskiptaleyndarmál

Sjálfstætt starfandi einstaklingar þurfa einnig að þekkja reglur um sambærileg réttindi sem tengjast hugverki þeirra, þar á meðal:

a) Vörumerki

Vörumerki eru tákn sem fyrirtæki nota til að auðkenna vörur og þjónustu. Skráð vörumerki veitir eiganda þess einkarétt til notkunar og rétt til að banna öðrum að nota svipað eða eins merki fyrir sömu vörur og þjónustu.

Skráning og gildistími

  • Vörumerkjaskráning gildir í 10 ár frá umsóknardegi.
  • Hægt er að endurnýja skráningu til 10 ára í senn ótakmarkað oft.

Tegundir vörumerkja

  • Algeng vörumerki samanstanda af orðum, myndum eða blöndu af báðum.
  • Einnig geta vörumerki verið bókstafir, tölustafir, mynstur, litir og hljóð.

Vernd í öðrum löndum

  • Skráð vörumerki eru landsbundin og gilda aðeins í því landi þar sem þau eru skráð.
  • Fyrirtæki sem hyggjast starfa erlendis ættu að skrá vörumerki sín þar einnig til að tryggja alþjóðlega vernd.

Hugverkastofan.

Vörumerkjaleitarvél Hugverkastofunnar hefur að geyma öll þau vörumerki sem skráð eru á Íslandi.

b) Hönnunarvernd

Hönnunarskráning verndar útlit vöru eða hluta af vöru, þar á meðal lögun, liti og mynstur. Til að hönnun fái vernd þarf hún að vera ný og ólík því sem fyrir er.

Hönnunarvernd er mikilvæg fyrir nýja og einstaka hönnun, en síður gagnleg fyrir smávægilegar breytingar á eldri hönnun.

Vernd hönnunar:

  • Hægt er að skrá hönnun hjá Hugverkastofunni, en notkun ein og sér veitir ekki vernd.
  • Höfundarréttur getur í sumum tilvikum átt við.
  • Skráð hönnun getur notið verndar í allt að 25 ár.
  • Skráning veitir einkarétt til að nýta hönnunina eða veita öðrum leyfi til notkunar (nytjaleyfi) og banna öðrum að nota hana án leyfis.

c) Viðskiptaleyndarmál

Viðskiptaleyndarmál eru upplýsingar sem hafa viðskiptalegt gildi og þarf að halda leyndum til að tryggja samkeppnishæfni fyrirtækja.

Til að upplýsingar teljist viðskiptaleyndarmál þurfa þær að uppfylla þrjú skilyrði:

1. Þær mega ekki vera almennt þekktar eða auðfáanlegar.

2. Þær þurfa að hafa verðmæti vegna þess að þær eru leyndarmál.

3. Eigandi þeirra þarf að hafa gripið til viðeigandi ráðstafana til að halda þeim leyndum.

Almenn starfsreynsla og færni sem starfsmaður öðlast í starfi telst ekki til viðskiptaleyndarmála. Sama gildir um upplýsingar sem eru almennt aðgengilegar.

Fyrirtæki geta gripið til eftirfarandi ráðstafana til að vernda viðskiptaleyndarmál:

  • Trúnaðarsamningar við starfsmenn og samstarfsaðila.
  • Trúnaðarákvæði í ráðningarsamningum.
  • Takmörkun á aðgengi að viðkvæmum upplýsingum þannig að aðeins nauðsynlegir aðilar hafi aðgang.

Með þessum aðgerðum er hægt að tryggja öryggi viðskiptaleyndarmála og vernda verðmæti þeirra.

Samningsráð

  • Aldrei skrifa undir samning án þess að hafa lesið hann vel.
  • Leita ráða hjá aðildarsamtökum BHM eða höfundaréttarsérfræðingi ef vafi leikur á.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt